Erfiður dagur hjá Fjölskylduhjálpinni

Myndin er úr safni.
Myndin er úr safni. mbl.is/Sverrir

Jólaaðstoð Fjölskylduhjálpar Íslands hófst í gær og var einnig veitt í dag. Að sögn Ásgerðar Jónu Flosadóttur, formanns Fjölskylduhjálparinnar, var dagurinn í  dag afar erfiður.

„Eingöngu þeir sem voru búnir að skrá sig áður gátu fengu jólaúthlutunina. Aðrir voru ævareiðir vegna þess að þeir gátu ekki fengið jólavarninginn,“ segir Ásgerður Jóna. 

„Við vorum kölluð öllum illum nöfnum, fyrst og fremst af þeim sem eru af erlendu bergi brotnir og vorum skömmuð fyrir að auglýsa þetta ekki á öðrum tungumálum en íslensku. Það ríkti stríðsástand á tímabili.“

Ásgerður Jóna segir að margir hafi verið að leita til Fjölskylduhjálparinnar í fyrsta skipti.  „Hingað kom fólk sem aldrei hefur komið áður. Það var hræðilega sorglegt ástand fyrir utan húsið,“ segir Ásgerður Jóna.

„Hér var svo mikil örvænting og því miður gátum við aðeins afgreitt um 400 fjölskyldur, því jólaúthlutunin tók svo langan tíma. Það var virkilega sárt, því við vitum að það var lokað á öðrum stöðum í dag.“

Jólaaðstoð Fjölskylduhjálpar Íslands verður næst veitt á þriðjudaginn og miðvikudaginn í næstu viku. Skráning verður á morgun, mánudag og þriðjudag.

Ásgerður Jóna segist reikna með að 2000 fjölskyldur nýti sér aðstoð Fjölskylduhjálparinnar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert