„Þetta kom mér mjög á óvart. Það hefur ekkert legið fyrir um breytingar, hvorki á fjárhæðum né öðru,“ sagði Guðbjartur Hannesson, ráðherra heilbrigðis-, félags- og tryggingamála um ákvörðun fulltrúaráðs Sólheima í Grímsnesi að heimila uppsögn þjónustu við fatlaða ásamt ráðningar- og leigusamningum.
Guðbjartur minnti á að fyrir Alþingi liggur lagafrumvarp um að færa málefni fatlaðra til sveitarfélaganna. „Sólheimar eru eins og aðrar sjálfseignarstofnanir í þeirri stöðu að nýr samningur verður að gerast við sveitarfélagið. En Þeir fá peninga óbreytta frá þessu ári,“ sagði Guðbjartur.Hann kvaðst ekki átta sig á tilefni viðbragða forsvarsmanna Sólheima.
Á blaðamannafundi forsvarsmanna Sólheima í dag var nefnt að ástæða ákvörðunarinnar um að segja upp þjónustunni væri þríþætt.
„Í fyrsta lagi vegna þess að framkvæmdastjórn Sólheima telur þær fjárveitingar sem heimilinu er ætlað á fjárlögum næsta árs dugi alls ekki fyrir rekstrinum. Í öðru lagi vegna þess að Sólheimar hafi ekki fengið mat á þjónustuþörf fatlaðra í 8 ár, þrátt fyrir að lög kveði á um að það slíkt mat skuli framkvæmt árlega. Í þriðja lagi lítur stjórn Sólheima svo á að það starfsumhverfi sem Sólheimum verði boðið upp á, verði lögin um flutning málefna fatlaðra frá ríki til sveitarfélaga samþykkt óbreytt, henti alls ekki stöðu Sólheima,“ eins og segir í frétt mbl.is frá því fyrr í dag.
Guðbjartur taldi orð talsmanna Sólheima um fjárveitingar benda til þess að þeir þurfi meira, því fjárveitingin sé óbreytt á milli ára.
Hann sagði að mat á þjónustuþörf hafi verið unnið á liðnu sumri á öllu landinu í tengslum við væntanlega yfirfærslu þjónustu við fatlaða til sveitarfélaganna. Vinnu við það lauk í október sl.
Nýju þjónustumati hefur ekki verið fylgt eftir með greiðslum, en gert er ráð fyrir að það komi til framkvæmda árið 2012. Guðbjartur benti á að það geti virkað bæði til lækkunar og hækkunar.
Hvað varðar þá sérstöðu Sólheima sem forsvarsmenn þeirra vísa til sagði Guðbjartur að lög tryggi það að þjónusta sé veitt þar sem fólk býr, óháð því hvar það á lögheimili eða hefur búið áður.
„Þeir einstaklingar sem þarna búa eiga rétt á þjónustu þar,“ sagði Guðbjartur. „Nú þegar þetta fer yfir til sveitarfélaga þá er það þjónustusvæðið á Suðurlandi, en ekki bara sveitarfélagið [Árborg] sem Sólheimar eru í, sem skipuleggur þjónustuna.“
Guðbjartur sagði að Árborg hafi tekið að sér að sjá um samninga við sjálfseignarstofnanir. Þjónustusvæðið á Suðurlandi muni því gera samninga við Sólheima. „Ég veit ekki betur en að þeir hafi aldrei boðað annað en þeir muni taka við skuldbindingunum eins og þær eru í dag,“ sagði Guðbjartur.