Áttum kost á Icesave-samningi í mars

Jóhanna Sigurðardóttir á Alþingi.
Jóhanna Sigurðardóttir á Alþingi. mbl.is/Árni Sæberg

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra segir að Icesave-samningur svipaður þeim sem nú hefur verið gerður hafi legið á borðinu skömmu áður en þjóðaratkvæðagreiðslan um Icesave fór fram í mars. Hún segir nauðsynlegt að reikna út kostnað við hann.

Eftir að forseti Íslands neitaði að undirrita lög um Icesave hófust á ný viðræður við Breta og Hollendinga um breytta samninga. Engin niðurstaða varð í viðræðunum en Jóhanna sagði á Alþingi í morgun að þá hefði legið á borðinu samningur sem var sambærilegur þeim sem nú hefði verið gerður. Hún sagði að stjórnarandstaðan hefði hins vegar lagst gegn samningnum.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, spurði forsætisráðherra hver væri munurinn á gamla samningnum og nýja samningnum, að frátöldum vöxtunum. Nú væri talað um að samningurinn kostaði innan við 100 milljarða, en eldri samningur hefði kostað 400-500 milljarða.

Jóhanna sagðist ekki hafa lagt mat á nýja samninginn en það hefði samninganefnd Íslands gert. Niðurstaða hennar væri að munurinn væri 110 milljarðar. Aðstæður Íslands væru betri nú en á síðasta ári. Við værum með gjaldeyrisforða sem gerði okkur kleift að hefja greiðslur fyrr en áður. Með því að hraða greiðslum spöruðust um 50 milljarðar. Um 40-60 milljarðar væru tilkomnar vegna hagstæðari gengismunar. Vextir væru líklega um einu prósentustigi lægri nú en í fyrra. Þá væri útlit fyrir betri endurheimtur úr búinu.

Sigmundur Davíð sagði sérkennilegt að forsætisráðherra talaði um betri stöðu Íslands núna, en menn hefðu talað um að hér yrði ísöld ef við myndum ekki samþykkja Icesave. Jóhanna sagði að staðan væri betri m.a. vegna þess að fjármálaráðherra hefði tekist að fá AGS til að samþykkja endurskoðun á efnahagsáætluninni þrátt fyrir að við værum ekki búin að semja um Icesave.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka