„Þetta er brýnasta efnahagsverkefnið á næstu mánuðum,“ sagði Árni Páll Árnason efnahags- og viðskiptaráðherra, á blaðamannafundi í Rúgbrauðsgerðinni um úrvinnslu skuldamála og lítilla fyrirtækja í dag. Árni Páll sagði aðgerðirnar ná til á milli 5.000 og 7.000 fyrirækja.
Árni Páll sagði að mörg lítil og meðalstór fyrirtæki hefðu ekki fengið úrvinnslu skulda í bankakerfinu. Því hefði þessari vinnu verið hrundið af stað. Hann bætti því svo við að eðlilegt væri hversu hægt hefði gengið í innlendri fjárfestingu, enda vissu fyrirtækin ekki hvað þau skulduðu.
Rakel Sveinsdóttir, framkvæmdastjóri Credit Info, sagði að breið samstaða hefði náðst um aðgerðirnar enda hefðu sex aðilar komið að gerð þess. Var skrifað undir samkomulagið klukkan 15.24.
Vilmundur Jósefsson, formaður Samtaka Atvinnulífsins, Úlfar Steinþórsson, forstjóri Toyota og stjórnarmaður í Viðskiptaráði, Birna Einarsdóttir, forstjóri Íslandsbanka, og Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, sátu í pallborði á fundinum.
Vilmundur lýsti yfir ánægju með að aðgerðirnar skuli nú liggja fyrir.
„Þegar þetta er komið af stað fara fyrirtækin að sjá að hægt verði að ráða fólk.“
Birna Einarsdóttir þakkaði fulltrúum stjórnvalda og atvinnulífsins fyrir málefnalegt samstarf sem og starfsmönnum fjármálafyrirtækja. Þeirra byði nú mjög mikil vinna.
Birna sagði vinnuna hafa gengið hægar en fulltrúar atvinnulífsins hefðu viljað sjá.
Árni Páll svaraði þá því til að bankarnir hefðu ekki fengið efnahagsreikning fyrr en í upphafi ársins. Þeir hefðu því ekki getað vitað hvað væri hægt að gera fyrr en eftir áramót. Þá hefðu ýmis vandamál komið upp.
Árni Páll sagði aðgerðirnar miðaðar við rekstrargetu fyrirtækja. Skuldsetningin verði miðuð við verðmæti fyrirtækisins. Fyrirtæki gætu nú treyst því að farið yrði í samræmdar aðgerðir í bönkunum og að ekki yrði munur á nálgun þeirra.
Sagði Birna þá samkomulagið gera bönkunum kleift að vinna með núverandi eigendum fyrirtækjanna.