Gæti „virkað eins og möl á gangvirkið“

Össur Skarphéðinsson og Jóhanna Sigurðardóttir.
Össur Skarphéðinsson og Jóhanna Sigurðardóttir.

Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra segir hugsanlegt að makríldeilan muni „virka eins og möl á gangvirkið“ í viðræðum um hugsanlega aðild Íslands að ESB. Það sé þó ekki víst.

Einar K. Guðfinnsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, spurði utanríkisráðherra um hótanir Evrópusambandsins í garð Íslands vegna makríldeilunnar á Alþingi í dag.

„Háttvirtur þingmaður spyr hvort að það sé hugsanlegt að makríldeilan kunni að hafa einhver áhrif á viðræður okkar við Evrópusambandið um mögulega aðild Íslands. Það er erfitt að svara því á þessu stigi. Það kann vel að vera að þegar fram í sækir þá muni það virka eins og möl á gangvirkið, en ég er ekki viss um það,“ sagði Össur.

Össur sagði að þessi deila væri hefðbundin fiskveiðideila og Íslandi kynni að reka fiskveiðideilu. Við hefðum ekki látið hótanir hafa áhrif á okkur og tekið okkur kvóta eins og við hefðum áður gert í deilum af þessu tagi.

Össur sagði ekki ástæðu til að gera of mikið úr þessari deilu, heldur „anda í kviðinn,“ eins og formaður þingflokks Samfylkingarinnar segði stundum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert