Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) ákvað í dag að hefja formlega rannsókn á ríkisaðstoð sem veitt var í október 2008 og september 2009 til varnar innlendri starfsemi viðskiptabankanna þriggja, Glitnis, Kaupþings og Landsbanka og til þess að stofna og fjármagna arftaka þeirra, sem nú nefnast Íslandsbanki, Arion banki og NBI (Landsbankinn). Þetta kemur fram á vef EFTA.
„Ráðstafanirnar, sem fólu einkum í sér að endurreisa tiltekna
starfsemi sem eldri bankarnir höfðu áður með höndum og stofna og
fjármagna nýju bankana, hefði átt að tilkynna ESA áður en þær komu til
framkvæmda. Íslenskum stjónvöldum bar jafnframt að leggja fram ítarlegar
áætlanir um endurreisn bankanna sem sýndu fram á rekstrarhæfi þeirra
til frambúðar án ríkisaðstoðar. Er þess venjulega krafist að slíkar
áætlanir séu lagðar fram innan sex mánaða frá því að aðstoðin var veitt.
Þar sem ekki hefur enn verið lokið við gerð slíkra áætlana, telur ESA
nauðsynlegt að hefja formlega rannsókn og veita hagsmunaaðilum þar með
færi á að koma að sjónarmiðum sínum," segir á vef EFTA
Per Sanderud, forseti ESA tók fram eftirfarandi, samkvæmt vef EFTA: „ESA er ljóst að Ísland glímdi á árunum 2008 og 2009 við mjög alvarlegar og fordæmalausar aðstæður og afskipti ríkisvaldsins voru nauðsynleg. ESA verður engu að síður að meta hvort ríkisaðstoð sem bönkunum var veitt væri hæfileg án þess að raska um of samkeppni. Í þessu skyni er því brýnt að áætlanir um endurreisn bankanna verði lagðar fram svo fljótt sem auðið er.”
Sem þátt í rannsókninni mun ESA einnig m.a. meta hugsanlega ríkisaðstoð við nýju bankana í formi sérstakrar lausafjárfyrirgreiðslu við Arion banka og Íslandsbanka ásamt flutningi tiltekninna eigna og skuldbindinga vegan innlána frá Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis (SPRON) til Arion banka og frá Straumi-Burðarás fjárfestingarbanka til Íslandsbanka.
Með því að hefja formlega rannsókn er engin afstaða tekin til þess fyrirfram hvort viðkomandi ráðstafanir samrýmist á endanum ákvæðum EES samningsins um ríkisaðstoð. Þessi málsmeðferð tryggir hins vegar að þeir sem eiga hagsmuna að gæta geti komið sjónarmiðum sínum á framfæri, segir á vef EFTA.
Vegna lausafjárskorts og alvarlegra þreninga í starfsemi viðskiptabankanna þriggja, Glitnis, Kaupþings og Landsbanka Íslands, ákvað Fjármálaeftirlitið sem kunnugt er í október 2008 að taka við stjórn bankanna og setja þeim skilanefndir. Þá ákvað ríkisstjórnin að stofna þrjá nýja viðskiptabnaka, sem í fyrstu voru að fullu í eigu ríkisins. Nýju bankarnir, sem nú nefnast Íslandsbanki, Arion banki og NBI (Landsbankinn), tóku við innlendum eignum forvera sinna og skuldbindingum þeirra vegna innlendra innlána. Voru þessar ráðstafanir gerðar til þess að tryggja áframhaldandi innlenda fjármálaþjónustu.
Nýju bankarnir fengu í byrjun hver um sig stofnfé í formi reiðufjár sem nemur lágmarkshlutafé viðskiptabanka samkvæmt íslenskum lögum jafnframt því sem ríkisstjórnin skuldbatt sig til þess að fjármagna þá að fullu. Í kjölfar þess að samkomulag náðist sumarið 2009 í samningaviðræðum við lánadrottna eldri bankanna um verðmæti eigna og skulda sem færðar voru til nýju bankanna, var síðan lokið við fjármögnun þeirra. Í tilviki Íslandsbanka og Arion banka er eignarhald nú að meirihluta til í höndum lánadrottna forvera þeirra, en með því móti varð framlag ríkisins mun lægra en ef bankarnir hefðu áfram verið að fullu í eigu ríkisins.
Óvissa í íslenskum efnahagsmálum og lagaleg ágreiningsefni varðandi verðmæti eigna bankanna hafa leitt til þess að tafist hefur að íslensk stjórnvöld legðu fram áætlanir um endurreisn þeirra. ESA er kunnugt um ástæður þessara tafa, en telur samt óhjákvæmilegt að hefja formlega rannsókn, í ljósi þess hve langt er um liðið frá því er ríkisaðstoð var fyrst veitt.