„Almennt gengur Íslendingum vel hér í Noregi og þeir eru eftirsóttur starfskraftur,“ segir Arna Grétarsdóttir, prestur íslenska safnaðarins í Noregi. Mikið er að gera hjá prestinum þessa desemberdaga og hún heimsækir meðal annars Þrándheim, Bergen, Stavanger og Drammen fyrir utan hefðbundið starf í Osló. Hún nái á aðventunni að heimsækja þá staði þar sem Íslendingar séu flestir.
Arna hefur verið prestur í Noregi síðan haustið 2007 og á þessum tíma hefur fjölgað í söfnuðinum úr tæplega fjögur þúsund manns í um sex þúsund. Hún segir að mest sé af iðnaðarmönnum í hópi þeirra sem hafi flutt til Noregs frá hruninu á Íslandi. Arna nefnir einnig tæknimenntað fólk og fólk með háskólamenntun.
Arna segir mörg dæmi um að annar aðilinn hafi komið á undan, en makinn komi síðan með börnin nokkrum mánuðum síðar. Slíkir flutningar séu helst þegar leyfi eru í skólum og um áramótin séu til dæmis nokkrar fjölskyldur væntanlegar og eins í vor.