Óþolandi þversagnir ráðamanna

Sigurður Bessason, formaður Eflingar.
Sigurður Bessason, formaður Eflingar. mbl.is/Árni Sæberg

Sigurður Bessason, formaður Eflingar, segir að þær þversagnir sem komi fram í orðum og athöfnum ráðherra ríkisstjórnarinnar séu óþolandi fyrir þá sem eigi að leggja grunn að nýjum kjarasamningum.

Þetta kemur fram í nýjasta fréttablaði Eflingar. Þar segir Sigurður ennfremur að það sé lýsandi dæmi að félagsmálaráðherra Guðbjartur Hannesson hafi lýst því yfir að það þurfi að hækka kaup fólks til að berjast gegn fátæktinni og segist Sigurður sammála því.

Guðbjartur sitji hins vegar í ríkisstjórn sem skeri linnulaust niður laun á stofnunum ríkisins, geri ekki ráð fyrir neinum launahækkunum í fjárlagafrumvarpi fyrir opinbera markaðinn en lýsi því jafnframt yfir að það þurfi að hækka laun á almennum vinnumarkaði. Sigurður segir að svona tvískinnungur gangi ekki og kallar eftir uppbyggilegri atvinnu- og lífskjarastefnu ríkis og sveitarfélaga.

„Undanfarnar vikur og mánuði höfum við horft á atvinnuleysið vera að festast í sessi. Stöðugt fjölgar í þeim hópi sem hefur verið án atvinnu í sex mánuði eða lengur og í dag eru rúmlega helmingur af félagsmönnum Eflingar sem eru án atvinnu í þeirri stöðu. Þrátt fyrir að það hafi fækkað á atvinnuleysisskránni yfir sumarmánuðina þá hefur fjölgað um rúmlega 200 manns á skránni um síðustu tvenn mánaðamót,“ segir Sigurður í samtali við Eflingarblaðið. Það sé auðvitað ekki hægt annað en hafa áhyggjur af þessari stöðu.

Viðtalið í heild.

Leiðari Sigurðar í nýjasta fréttablaði Eflingar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert