Strætó hættir að keyra kl. 23:30 á kvöldin

Strætó mun að öllum líkindum hætta að keyra kl. 23:30 …
Strætó mun að öllum líkindum hætta að keyra kl. 23:30 á kvöldin.

Strætó mun hætta að ganga kl. 23:30 á kvöldin í stað 00:30 samþykki sveitarfélögin sparnaðartillögur stjórnar Strætó. Breytingin tekur líklega gildi 1. febrúar. Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir, stjórnarformaður Strætó, segir að þessi síðasti klukkutími sé mjög dýr, en innan við 300 manns noti strætó á þessum tíma.

Strætó bs. er byggðasamlag sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu, en í því felst að öll sveitarfélögin þurfa að samþykkja fjárhagsáætlun fyrirtækisins. Þessu lögbundna samráði er ekki lokið.

Guðrún Ágúst segir að Strætó þurfi að spara rúmlega 5% í rekstri. Stjórn Strætó hafi gert tillögu um að þetta verði gert með því að stytta þjónustu vagnanna á kvöldin um einn klukkutíma og að akstur byrji klukkutíma síðar á laugardagsmorgnum.

Hún segir að þjónusta verði aukin þar sem álagið sé mest, en farþegum strætó hefur fjölgað á síðustu misserum og hefur strætó þurft að bæta við vögnum á álagstímum.

Guðrún Ágústa segir að gert sé ráð fyrir að breytingar verði á gjaldskrá. Stefnt sé að því að gera sem minnstar breytingar á afsláttarfargjöldum en að eitt stakt fargjald hækki. Hún vill þó ekki fara nánar út í þessar breytingar þar sem sveitarfélögin hafi ekki lokið umfjöllun um fjárhagsáætlunina.

Guðrún Ágústa segir að flestir farþegar strætó verði ekki varir við skerðingu á þjónustu, en hún segist ekki gera lítið úr því að stytting þjónustunnar á kvöldin komi óþægilega við þá sem treysta á ferðir strætó um miðnættið. Hún tók fram að breytingar á leiðakerfi strætó myndu í fyrsta lagi taka gildi 1. febrúar á næsta ári.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert