Þjónustu við fatlaða hætt á Sólheimum

Frá blaðamannafundi um málefni Sólheima
Frá blaðamannafundi um málefni Sólheima mbl.is/Ernir Eyjólfsson

Fulltrúaráð Sólheima í Grímsnesi hefur samþykkt að heimila framkvæmdastjórn heimilisins að segja upp þjónustu við fatlaða ásamt ráðningarsamningum, leigusamningum og öðrum skuldbindingum. Skipað verður áfallateymi til að hjálpa íbúum og aðstandendum að takast á við óvissuna sem þessu fylgir.

Ástæðan er þrískipt. Í fyrsta lagi vegna þess að framkvæmdastjórn Sólheima telur þær fjárveitingar sem heimilinu er ætlað á fjárlögum næsta árs dugi alls ekki fyrir rekstrinum. Í öðru lagi vegna þess að Sólheimar hafi ekki fengið mat á þjónustuþörf fatlaðra í 8 ár, þrátt fyrir að lög kveði á um að það slíkt mat skuli framkvæmt árlega. Í þriðja lagi lítur stjórn Sólheima svo á að það starfsumhverfi sem Sólheimum verði boðið upp á, verði lögin um flutning málefna fatlaðra frá ríki til sveitarfélaga samþykkt óbreytt, henti alls ekki stöðu Sólheima.

Pétur Sveinbjarnarson stjórnarformaður Sólheima sagði á blaðamannafundi nú síðdegis að sér væri þungbært að tilkynna þessa ákvörðun enda Sólheimar elsta þjónusta við fatlaða á Íslandi með 80 ára langa sögu. „Við höfum reynt að finna allar hugsanlegar leiðir til þess að tryggja stöðu Sólheima og íbúa Sólheima,“ sagði Pétur. Sem liður í því hafi stjórn Sólheima reynt að fá því framgengt að sett yrði bráðabirgðaákvæði í lagasetninguna sem heimilaði Sólheimum að semja beint við jöfnunarsjóð sveitarfélaga til fjögurra ára. Samkvæmt lagafrumvarpinu er samningsaðili Sólheima sveitarfélagið Árborg. Pétur segir að stjórn Sólheima meti það svo að óeðlilegt sé að Sólheimar eigi að sækja starfsleyfi til sveitarfélags sem sjálft reki þjónustu fyrir fatlaða og hafi eftirlit með sjálfri sér. Eðlilegra sé að Sólheimar fái að semja við jöfnunarsjóð sveitarfélaga þar sem Sólheimar þjóni landinu öllu og íbúar komi alls staðar að. Það fékkst ekki. 

Til þess að koma í veg fyrir að íbúar Sólheima þurfi að flytjast brott strax um áramót hyggst stjórn Sólheima bjóða sveitarfélögum á Suðurlandi að taka á leigu húseignirnar á staðnum til eins árs. 

„Við reynum að slá verndarhring í kring um okkar fólk í þeim erfiðleikum sem það gengur í gegnum á næstu vikum og misserum, reynum að standa með okkar fólki, síðan reynum við að sjá hvernig við getum með sem bestum hætti ráðstafað okkar atvinnuhúsnæði og mannvirkjum," segir Pétur. Sjálfseignarstofnunin hyggst reka áfram aðra starfsemi sem byggst hefur upp á Sólheimum, s.s. verslunina, garðyrkjustöð og gistiheimili. 

Guðmundur Ármann Pétursson framkvæmdastjóri Sólheima segir að ekki sé hægt að líta fram hjá sérstöðu Sólheima þegar kemur að flutningi málefna fatlaðra til sveitarfélaga. „Það eina sem við höfum beðið um er að fá grið til þess að hægt sé að vernda Sólheima, vegna þess að þeir eru öðruvísi. Það er nauðsynlegt að f þá sérstöðu viðurkennda til þess að hún geti áfram verið einkennismark Sólheima, ég skil ekki af hverju það er ekki hægt."

Ályktun fulltrúaráðs Sólheima ses.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka