Tollstjóri herðir eftirlit með „gjöfum“

Ólöglegt er að senda varning til landsins og merkja hann …
Ólöglegt er að senda varning til landsins og merkja hann sem gjafir.

Starfsmenn Tollstjóra ætla að auka eftirlit með póstsendingum sem sagðar eru innihalda gjafir. Hjá tollstjóra hafa menn orðið varir við að Íslendingar búsettir erlendis auglýsi á netsíðum að þeir taki að sér að annast innkaup fyrir fólk búsett hér á landi og að senda síðan varninginn hingað til lands sem gjafir. 

Í frétt frá Tollstjóra segir að þeir sem þannig standi að málum tilgreini ranglega á sendingunum að um gjafir sé að ræða og látið sé líta svo út sem engar greiðslur eigi sér stað milli aðila.  Með þessu móti er reynt að komast hjá greiðslu lögboðinna aðflutningsgjalda.  

Í reglugerð um tollfríðindi kemur fram hvaða gjafir séu undanþegnar aðflutningsgjöldum.  Eru það eingöngu tækifærisgjafir sendar af sérstöku tilefni svo sem vegna jóla, afmælis eða fermingar og miðað við að verðmæti þeirra sé ekki meira en 10.000 kr. miðað við smásöluverð á innkaupsstað.  „Augljóst er að ofangreind þjónusta uppfyllir engan veginn þessi skilyrði enda má lesa út úr sumum auglýsingunum að þessi aðferð við innflutning varningsins sé valin beinlínis til þess að auka líkur á því að komist verði hjá greiðslu lögboðinna gjalda.  Auk þess sem þessi innflutningur fer í bága við nefnda reglugerð kann hann að varða refsingu samkvæmt 171 grein í tollalögum nr. 88,2005.  Þá kann athæfi þeirra sem senda varninginn hingað til lands einnig að vera andstæður lögum í útflutningslandinu, m.a. skattalögum vegna þeirra greiðslna sem þeir taka fyrir hverja sendingu.“

Af hálfu tollstjóra mun eftirlit verða aukið með póstsendingum sem sagðar eru innihalda gjafir.  Jafnframt mun samvinna við erlend tollyfirvöld verða aukin og þeim tilkynnt um þá aðila sem senda varning með þessum hætti til landsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert