Búast má við mikilli hálku í dag, en Veðurstofan spáir því að það muni snögg kólna í dag og það verði víðast hvar frost seinnipartinn. Rigning var á SV-landi í morgun og því bjóða aðstæður upp á varasama hálku.
Það er því betra fyrir fólk að fara varlega í dag, bæði gangandi vegfarendur og þeir sem eru á bíl. Veður hefur verið milt á landinu síðustu daga og því má búast við að hálkan komi einhverjum að óvörum.
Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur bendir á það á veðurbloggi sínu að kl. 6 í morgun var komið vægt frost á Raufarhöfn en 9 stiga hiti var þá á Akureyri. Mjög kalt heimskautaloft er því á leið yfir landið.