Dýrustu leiðirnar ekki alltaf öruggastar

Vegagerðin telur að ekki þurfi alltaf  að velja dýrustu leiðirnar til að ná tilætluðum árangri.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu á vefsíðu Vegagerðarinnar. Þar segir að umferð á Suðurlandsvegi sé ekki það mikil að þörf sé á 2+2 vegi umferðarmagnsins vegna.

Til að auka umferðaröryggi á veginum þurfi að aðskilja gagnstæðar akstursstefnur og það megi gera með mun einfaldari hætti eða með 2+1 vegum. 

„Aðskilnaður akstursstefna er mikilvægt umferðaröryggismál og hefur mest að segja um fækkun alvarlegustu slysanna. Víða erlendis hefur verið farin sú leið að flýta fyrir vegaframkvæmdum með því að leggja tollvegi þar sem vegfarendur greiða beint fyrir vegabæturnar með veggjöldum,“ segir á vefsíðunni.

Veggjöld eða seinkun framkvæmda

„Eins og staðan er á Íslandi þá stendur valið um að fara í þessar framkvæmdir með lántöku þar sem vegfarendur greiða niður lánin með veggjöldum, eða fara ekki í þessar framkvæmdir fyrr en eftir nokkuð mörg ár,“ segir á vefsíðu Vegagerðarinnar. „Framkvæmdirnar munu ekki á nokkurn hátt tefja aðra uppbyggingu vegakerfisins svo sem á sunnanverðum Vestfjörðum. Til viðbótar við arðsemi framkvæmdanna leiðir flýtingin til atvinnusköpunar fyrir fólk og verktaka en sú þörf hefur sjaldan verið brýnni. “

Í tilkynningunni segir að um það verði ekki deilt að gerð mislægra vegamóta auki öryggi vega. Kostnaður við gerð slíkra vegamóta sé hins vegar það hár að vart sé verjandi að nota þau á umferðarlitla vegi nema við sérstaklega erfiðar aðstæður

Kostnaður afar misjafn

Við gerð frumdraga að breikkun Suðurlandsvegar frá Hólmsá til Hveragerðis var lagt mat á kostnað við mismunandi breiddir vega og reyndist 2+2 vegur með planvegamótum 50 % dýrari en 2+1 vegur með planvegamótum.

Reynslutölur frá Svíþjóð segji hins vegar að munur á öryggi sé lítill sem enginn. 2+2 vegur með mislægum vegamótum sé hins vegar 150 % dýrari en 2+1 vegur með planvegamótum. „Öryggið er vissulega meira en ekki í nokkru samræmi við það sem næðist fram í auknu öryggi með því að nota mismun kostnaðarins til að aðskilja akstursstefnur víðar í vegakerfinu,“ segir í tilkynningunni.

Réttlætanlegt þótti að gera 2+2 veg upp að Litlu kaffistofu þar eð umferðin er þar töluvert meiri en austar, þar sem hluti hennar fer um Þrengslaveginn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka