Endurvinnslutunna við hvert hús

Sorptunnur sem eru í boði í Reykjavík
Sorptunnur sem eru í boði í Reykjavík

Borgarráð samþykkti á fundi sínum í morgun breytingar á sorphirðu í Reykjavík. Meðal breytinga er að á næsta ári verður hafin söfnun á flokkuðu sorpi við heimili í Reykjavík. Tvenns konar tunnur verða við hvert heimili, ílát fyrir sorp til endurvinnslu auk núverandi íláts fyrir blandað sorp.

Breytingarnar ganga í gildi í áföngum árið 2011 og eru gerðar í hagræðingarskyni og til samræmis við stefnu Reykjavíkurborgar um að draga úr úrgangi og auka flokkun og endurvinnslu úrgangs, segir í tilkynningu.

Dregið úr sorphirðu í borginni

Frá og með 1. janúar 2011 verður heimilissorp sótt á 10 daga fresti í stað 7. Magn heimilissorps í Reykjavík hefur minnkað um 20% á síðastliðnum árum og því ætti breytingin að hafa óveruleg áhrif á borgarbúa. Þetta er einnig í samræmi við sorphirðutíðni í nágrannasveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu.

Önnur breyting felst í því að stytta vegalendir milli sorphirðubíla og sorptunna en víða eru sorpílát tugi metra inni á lóðum, jafnvel bak við hús og veldur það töluverðum töfum á sorphirðu, segir í tilkynningu.

Greiða þarf aukagjald ef fjarlægð tunnu frá sorpbíl fer yfir 15 metra

Áætlað er að um 50% af vinnutíma starfsmanna við sorphirðu í Reykjavík hafi hingað til farið í það að ganga inn á lóðir. Til að nýta tíma starfsmanna betur og þróa betra verklag verða sorpílát frá 1. apríl 2011 sótt að hámarki 15 metra frá sorpbíl.

„Vonir standa til að með tímanum styttist þessi vegalend. Borgarbúar geta þangað til keypt viðbótarþjónustu ef sækja þarf ílát lengra en 15 metra og kostar hún 4.800 krónur á ári. Annað úrræði er að færa sorpílátin á losunardögum eða flytja sorpgerðin þar sem það er hægt. Þessi aðgerð er til hagræðingar og byggist á góðri samvinnu borgarstarfsmanna og borgarbúa.

Sú nýlunda verður tekin upp í Reykjavík að safna sorpi til endurvinnslu við hvert heimili. Reykjavíkurborg mun af þeim sökum bæta við endurvinnslutunnum í áföngum eftir mitt næsta ár og ljúka því árið 2012. Endurvinnslutunnan hefur lítil áhrif á hirðukostnað vegna hagræðingarinnar í heild og munu sorphirðugjöld því ekki hækka af þessum sökum. Síðar meir verður kynnt hvaða úrgangsflokka skuli setja í hvora tunnu fyrir sig.

Einnig er lagt til að hafin verði söfnun og vinnsla á lífrænum eldhúsúrgangi árið 2013. Sú söfnun kallar ekki á viðbótartunnu heldur verður sérstakt ílát hengt inn í sorpílátið," segir í tilkynningu.
       

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert