Fjárlög ársins 2011 voru samþykkt með 32 atkvæðum. 31 þingmaður sat hjá, m.a. þrír þingmenn VG. Frumvarpið var samþykkt með 37,3 milljarða halla.
Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra sagðist gera sér vonir um að með þessum fjárlögum sköpuðust forsendur fyrir nýtt upphaf. Þó að breytingar hefðu verið gerðar á frumvarpinu hefði tekist að varðveita markmið um afgang á frumjöfnuði, en hann yrði um 1% af landsframleiðslu.
„Ég á mér þá von að þetta frumvarp, þó að það sé erfið birtingarmynd þeirra óskapa sem á Ísland dundu 2008, marki um leið nýtt upphaf og að það boði að árið 2011 geti orðið okkur Íslendingum á margan hátt farsælt. Ár sem mikill viðsnúningur verður og við hefjum sókn á nýjan leik eftir varnarbaráttu sem við höfum háð tvö undanfarin ár.“
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, sagði að vegna þessa frumvarps yrði sóknin, sem fjármálaráðherra talaði um, veikari en að var stefnt og Íslendingar þyrftu á að halda.
„Það er sagt að stjórnmál séu list hins mögulega. Manni kemur þetta í huga þegar stjórnmálamaðurinn og listamaðurinn sem gekk til liðs við VG verður þeirra bjargvættur [Þráinn Bertelsson]. Án liðsaukans sem Vinstri grænir hafa fengið, þar sem að þeir hafa misst 20% þingflokksins fyrir borð við umræðu þessa máls, hefðu þeir ekki haft meirihluta í þinginu. Það segir meira en mörg orð um stöðu ríkisstjórnarinnar og stöðu þess fjárlagafrumvarps sem hér er verið að greiða atkvæði um,“ sagði Bjarni.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, sagði að það væri ekki bara vinnubrögðin sem væru slæm sem lægju að baki fjárlagavinnunni. Frumvarpið væri slæmt. Tekjur væru ofáætlaðar og stórum útgjaldalið, Icesave-samningnum, væri hreinlega sleppt, en greiða þyrfti 26 milljarða vegna þeirra á næsta ári. „Við skulum vona að þetta verði eina Grikklandsárið hjá ríkisstjórninni í fjárlagagerðinni en ég er dálítið hræddur um að svo verði ekki,“ sagði Sigmundur Davíð.