„Ég held að það væri góð gjöf ef að við gætum í heimi stjórnmálanna sameinast um að reyna að klára þetta á þann hátt sem við teldum áhættuminnstan og hagstæðastan fyrir Ísland,“ sagði Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra í umræðu um Icesave-frumvarpið.
„Er það ekki bara þannig, frú forseti, að best sé að vera raunsær en hæfilega bjartsýnn og vona að við eigum þess kost að komast að lokum sem klakklausast frá þessu máli,“ sagði Steingrímur ennfremur á Alþingi í dag.
„Það hefur reynt á og verið okkur erfitt. Það hefur farið í það mikill tími og það hefur farið í það mikil orka. Það hefur valdið deilum, hér innan veggja og úti í samfélaginu. Það er eins og það er. Það er arfur frá liðnum tíma sem við komumst ekki undan að horfast í augu við og takast á við. Það er okkar viðfangsefni, okkar verkefni og okkar skylda að reyna að leiða það til lykta á þann farsælasta og hagstæðasta hátt sem við teljum að við eigum kost á.“
Steingrímur segist vonast til þess að umræðan verði málefnaleg og hlutlæg.
Steingrímur bendir auk þess á að það sé hughreystandi að allar áætlanir skilanefnda og slitastjórnar Landsbankans hafi staðist fram að þessu.
„Þær hafa tekið breytingum eingöngu til batnaðar um mjög langt skeið. Það berast af því fréttir að það gæti komið til þess að búið ætti kost á að selja mjög verðmætar eignir úr safni sínu, jafnvel á næstu mánuðum. Sem að sjálfsögðu væru góð tíðindi,“ segir Steingrímur og bætir við að þá myndu greiðslur berast hraðar inn í búið.
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, veitti andsvar við ræðu fjármálaráðherra og spurði hvort það væri ekki komið endanlega í ljós að þjóðaratkvæðagreiðslan um Icesave, sem fór fram í vor, hefði ekki verið tilgangslaus tímasóun eins og ríkisstjórnin hefði haldið fram. „Heldur algjörlega nauðsynleg forsenda þess að undið yrði ofan af þeirri ómögulegu stöðu sem að stjórnin hafði komið málinu í, og því komið í nýjan farveg. Farveg þar sem við komum fram sem jafningjar við viðsemjendur okkar og stóðum frammi fyrir þeim sem fullvalda þjóð.“
Steingrímur sagði að staða Íslands hefði verið mjög erfið í upphafi Icesave-deilunnar. „Við vorum undir ógnarþrýstingi og fyrstu hugmyndir manna um að leysa þetta mál voru Íslandi bersýnilega afar óhagstæðar og í raun ósanngjarnar,“ sagði hann.
Steingrímur segir að stjórnarskiptin hafi verið hluti af láni Íslands. „Vegna þess að það allavega kom ekki til þess að málið yrði klárað á þeim forsendum sem þá voru hugmyndir uppi um. Og svo hversu langan tíma hefur tekið að ræða þetta mál í Alþingi og hversu fór með viðaukasamningana í byrjun þessa árs,“ sagði hann
„En þá verðum við að hafa í huga, háttvirtir þingmenn, að það hefur heldur ekki verið án fórna og kostnaðar fyrir Ísland hversu mjög hefur dregist að leysa þetta mál. Þá reikninga munum við aldrei geta séð. Við hefðum ekki getað borið raunveruleikann saman við eitthvað annað sem hefði orðið ef málið hefði tekið aðra stefnu,“ sagði Steingrímur.
Pétur Blöndal, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, spurði fjármálaráðherra m.a. út í áhættuna sem Ísland standi frammi fyrir vegna nýja samkomulagsins. T.d. hvað muni gerast ef neyðarlögin verða felld úr gildi eða Landsbankinn lendi í tjóni vegna dómsmála.
Steingrímur segir að áhættuþættirnir séu fyrst og fremst þrír. Í fyrsta lagi spurning um endurheimtuhlutfallið í búið, í öðru lagi hvenær greiðslurnar koma og loks spurning um gengið.
Þessu tengt sé lagaleg áhætta eins og neyðarlögin. „Þau eru grundvöllur allrar endurreisnar nýju bankanna og það er meira undir en bara Icesave og bara staða Landsbankans ef að þeim yrði kollvarpað. En á því hef ég enga minnstu trú. Ég er mjög bjartsýnn á og sannfærður um að okkur takist að verja þau.“