Myndir eftir Ragnar Axelsson, Rax, ljósmyndara á Morgunblaðinu, prýða 22 síður nýjasta tölublaðs þýska tímaritsins Stern.
Myndirnar fylgja með grein eins af blaðamönnum Stern, sem nýverið dvaldi meðal veiðimanna í Grænlandi í hálfan mánuð.
„Ég útvegaði honum veiðimenn til að fara með,“ segir Rax, sem er flestum hnútum kunnugur á Grænlandi, en ferðir hans þangað nálgast þriðja tuginn.
Hann segir að bráðum fari að vera síðustu forvöð að ná myndum af veiðimannasamfélaginu í Grænlandi. „Veiðimönnum hefur fækkað svo mikið. Það er svo erfitt að lifa eingöngu af veiðum, það eru margar reglugerðir sem hindra að þeir geti selt afurðir sínar. Svo er ísinn orðinn svo þunnur vegna hlýnunar jarðar. Samfélagið þarna er að breytast mjög hratt.“