Ísland á meiri möguleika

Við höfuðstöðvar AIB bank í Dublin. Wolf telur að með …
Við höfuðstöðvar AIB bank í Dublin. Wolf telur að með Icesave-samkomulaginu sé verið að skapa hættulegt fordæmi. Reuters

Tak­ist Íslend­ing­um að stuðla að hag­vexti á næstu árum eiga þeir mögu­leika á að vaxa út úr skuld­un­um. Þetta er mat Mart­ins Wolfs, aðstoðarrit­stjóra Fin­ancial Times, sem lýs­ir því yfir í ít­ar­legu viðtali við Morg­un­blaðið að hann sé ef­ins um mögu­leika Portú­gals og Spán­ar á að kom­ast úr krepp­unni. 

Viðtalið fór fram sím­leiðis og vildi Wolf, sem er einn þekkt­asti álits­gjafi heims á sviði efna­hags­mála, taka fram í upp­hafi sam­tals um Ices­a­ve-sam­komu­lagið að hann hefði ekki kynnt sér nýja samn­ing­inn til hlít­ar. En eins og kom fram í viðtali Morg­un­blaðsins við Wolf í janú­ar, í kjöl­far synj­un­ar for­set­ans, taldi hann þá að gera ætti nýj­an samn­ing sem væri hag­stæðari Íslandi.

„Ég hef ekki, vegna þess að ég hef verið að vinna að öðrum hlut­um, haft tök á að skoða samn­ing­inn eins ít­ar­lega og þann síðasta. Þetta er mik­il­vægt atriði sem ég vil taka fram áður en lengra er haldið. Ég lít ekki á mig sér­fræðing um málið en skiln­ing­ur minn er sá að grunn­gerð nýja samn­ings­ins sé sú sama og í síðasta samn­ingi en að skil­mál­arn­ir séu hag­stæðari fyr­ir Ísland hvað varðar vexti.“

Ísland gerði rétt með því að hafna fyrri samn­ing­um

Wolf spyr því næst hvort þetta sé rétt skilið í meg­in­at­riðum og tek­ur blaðamaður þá und­ir það. Hann held­ur svo áfram.

„Viðbrögð mín við samn­ingn­um eru þá tvíþætt. Í fyrsta lagi er þetta greini­lega betri samn­ing­ur og því var ákvörðunin um að hafna þeim síðasta góð hug­mynd, vegna þess að Ísland á nú kost á betri samn­ingi en ef landið hefði samþykkt síðasta samn­ing­inn.

Í öðru lagi er ég enn þeirr­ar skoðunar að Ísland eigi ekki að vera krafið og hefði ekki átt að vera krafið um að veita rík­is­ábyrgð til að standa und­ir inni­stæðutrygg­ing­unni, þ.e. inni­stæðutrygg­inga­kerfið sem aug­ljós­lega fór í þrot, í því til­viki þegar banka­kerfið brást.

Grund­vall­ar­spurn­ing­in hér er hvort skyn­sam­legt sé að full­valda ríki séu dreg­in til ábyrgðar fyr­ir öll af­glöp í fjár­mála­kerfi þeirra, einkum þegar, að minni hyggju, frem­ur aug­ljóst er að þess­ar stofn­an­ir voru áhættu­sam­ar út­frá skil­mál­um út­lán­anna sem þær buðu upp,“ seg­ir Wolf og á við að háir inn­lánsvext­ir á ís­lensk­um inn­láns­reikn­ing­um, af Ices­a­ve Lands­bank­ans og Kaupt­hing Edge-reikn­ing­un­um, hefðu átt að hringja viðvörðun­ar­bjöll­um.

Full­valda ríki séu ekki gerð ábyrg

Wolf held­ur áfram. 

„Svo mér lík­ar ekki sú staðreynd að full­valda ríkið Ísland sé gert ábyrgt fyr­ir því að bæta upp fyr­ir hrun inni­stæðutrygg­inga­kerf­is­ins. Ég tel að það sé afar óheppi­legt for­dæmi.

Þótt að það sé ljóst eft­ir því sem ég kemst næst að kostnaður­inn fyr­ir Ísland verði að lok­um lík­lega um­tals­vert lægri en fólk óttaðist fyr­ir ári síðan eða svo, vegna þess að eign­irn­ar úr skulda­upp­gjör­inu líta nú bet­ur út, sem og skil­yrðin, tel ég enn að það hefði verið betra að af­henda ein­fald­lega all­ar eign­irn­ar til breskra og hol­lenskra stjórn­valda og láta þær um að taka það sem þær gátu út úr þeim, og láta ís­lenska skatt­greiðend­ur í friði, vegna þess að ég tel ekki að ís­lenski skatt­greiðend­ur beri ábyrgð á þessu.

Ég er enn þeirr­ar skoðunar, eins og ég sagði, að þetta er greini­lega betri samn­ing­ur en áður, en að grund­vall­ar­regl­ur komi við sögu í þess­um samn­ingi, sem koma illa við mig. Ég tel að hvað varðar um­fang skuld­anna sem ís­lensk­ir skatt­greiðend­ur kunna að axla, og hug­mynd­ina um að skatt­greiðend­ur þurfi að bæta fyr­ir inni­stæðutrygg­inga­kerfi sem hef­ur brugðist, að þetta tvennt sé afar viðsjár­vert.“

Skatt­borg­ar­ar annarra ríkja gætu verið gerðir ábyrg­ir 

- Þú minnt­ist á að þetta skapi hættu­legt for­dæmi. Hvers vegna?

„Það gæti þýtt að í til­viki annarra svipaðra gjaldþrota í framtíðinni verði skatt­greiðend­ur annarra full­valda ríkja gerðir ábyrg­ir fyr­ir því að borga út spari­fjár­eig­end­ur hjá stofn­un­um sem starfa er­lend­is, mögu­lega í mjög miklu mæli og það gæti átt við breska ríkið og önn­ur ríki.

Sú regla að rík­is­stjórn­ir skuli ganga í ábyrgð fyr­ir skuld­ir fjár­mála­stofn­ana sem starfa er­lend­is virðist mér ótrú­lega hættu­leg og óheppi­leg fyr­ir fjár­mála­kerfið. Það er for­dæmið sem ég hef áhyggj­ur af. Mín skoðun er þessi: Inni­stæðutrygg­inga­sjóði var komið á og hann ætti að vera nægi­leg­ur og með full­nægj­andi fjár­mögn­un. Ef hann bregst tapa spari­fjár­eig­end­ur og þeira verða þá að sætta sig við það.“

Ísland ætti að ráða við skuld­irn­ar

- Sam­kvæmt nýj­um töl­um Hag­stofu Íslands eru skuld­ir ís­lenska rík­is­ins nú um 109% af þjóðarfram­leiðslu. Tel­urðu að þegar horft er til þessa hlut­falls og skuld­anna vegna Ices­a­ve, sem verða í minnsta lagi um 50 millj­arðar króna, sam­an­borið við um 1.500 millj­arða þjóðarfram­leiðslu, að Ísland sé komið upp að skulda­mörk­um sem ætti að vera þegn­um lands­ins áhyggju­efni?

„Ég hef ekki gaum­gæft þess­ar töl­ur en tel að það séu sæmi­leg­ar lík­ur í ljósi geng­is­fell­ing­ar­inn­ar sem Ísland hef­ur gengið í gegn­um. Íslenska hag­kerfið gæti vaxið nokkuð kröft­ug­lega. Ef sú verður raun­in kann skulda­hlut­fall upp á 109% af þjóðarfram­leiðslu að ganga nokkuð hratt til baka, vegna þess að mig grun­ar gengið sé of lágt skráð þannig að hag­vöxt­ur gæti vaxið frem­ur hratt að nafn­v­irði, sem ætti að hjálpa.

Ég hygg að hluti af þess­um skuld­um séu í er­lend­um gjald­eyri, vegna lána sem tek­in voru hjá Alþjóðagjald­eyr­is­sjóðnum og öðrum alþjóðleg­um aðilum. Ég tel því að hlut­fallið, 109%, muni lækka. Ég geri einnig ráð fyr­ir út frá því sem ég hef lesið - og ég vil aft­ur und­ir­strika að ég álít mig ekki sér­fræðing í þess­um efn­um - að góðar lík­ur séu á að þessi skuld muni ekki reyn­ast Íslend­ing­um mjög dýr, vegna þess að mikl­ar heimt­ur muni fást upp í kröf­un­ar úr þrota­bú­inu.

Ef það geng­ur eft­ir sýn­ast mér sæmi­leg­ar lík­ur - ég get ekki lagt fram töl­fræðileg­ar lík­ur, lík­urn­ar eru þó sann­ar­lega meiri en ekki - á að þetta skulda­hlut­fallið reyn­ist viðráðan­legt og að Ísland geti vaxið út úr erfiðleik­un­um sem landið stend­ur frammi fyr­ir. Þetta er vissu­lega hátt hlut­fall en að því gefnu að báðar álykt­an­ir gangi eft­ir sýn­ist mér rétt að vona að Ísland geti kom­ist út úr þessu.

Vanda­málið sem ég sé hjá nokkr­um evru­ríkj­anna, sem eru í svipaðri stöðu hvað skulda­hlut­föll snert­ir, er að vaxt­ar­mögu­leik­ar þeirra eru tak­markaðir og að þau skuli þurfa gíf­ur­lega niður­færslu á verðlagi til að end­ur­heimta sam­keppn­is­stöðu sína. Það vanda­mál virðist ekki koma upp á Íslandi.“

Ósveigj­an­leik­inn er vanda­mál 

- Er slík niður­færsla á verðlagi í um­rædd­um lönd­um raun­hæf í ná­inni framtíð?

„Í til­viki Írlands tel ég að niður­færsla verðlags sé sæmi­lega raun­sæ. Hún hef­ur svo sann­ar­lega átt sér stað. Írland virðist vera land sem á sæmi­lega mögu­leika á að ná fram því sem nú á dög­um er nefnt innri geng­is­fell­ing,“ seg­ir Wolf en innri geng­is­fell­ingu á hann við að laun séu lækkuð og þar með fram­leiðslu­kostnaður þannig að fjár­fest­ing­ar­um­hverfi viðkom­andi rík­is verði fýsi­legra, að viðbættri sterk­ari sam­keppn­is­stöðu.

„Hvað varðar önn­ur evru­ríki, Grikk­land, Portúgal og Spán, sem eiga ekki í ólík­um erfiðleik­um, verð ég að segja að ég er mun meira ef­ins að þau muni ná fram slíkri aðlög­un, vegna þess að skiln­ing­ur minn er sá að vinnu­markaðir þess­ara ríkja eru mun ósveigj­an­legri og geta þeirra til að þvinga fram launa­lækk­an­ir er með hliðstæðum hætti mun minni en Írland hef­ur sýnt fram á.“

Martin Wolf er aðstoðarritstjóri Financial Times.
Mart­in Wolf er aðstoðarrit­stjóri Fin­ancial Times.
Icesave-bollinn frægi.
Ices­a­ve-boll­inn frægi.
mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert