Lilja Mósesdóttir, Atli Gíslason og Ásmundur Einar Daðason, þingmenn VG, ætla ekki að styðja fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar. Þau lögðu fram tillögur um breytingar á frumvarpinu í þingflokki VG en þeim var hafnað.
„Það eru mikil vonbrigði að varnaðarorð um að fjárlögin muni dýpka kreppuna hafi ekki verið tekin alvarlega. Haldið er dauðahaldi í efnahagsáætlun AGS þrátt fyrir að hagvaxtarforsendurnar séu brostnar. Niðurskurður ríkisútgjalda við slíkar aðstæður mun stækka fjárlagafrumvarpið á næsta ári og krefjast meiri niðurskurðar en nú er gert ráð fyrir,“ sagði Lilja þegar hún gerði grein fyrir atkvæði sínu.
„Ég hef ásamt háttvirtum þingmönnum Atla Gíslasyni og Ásmundi Einari Daðasyni lagt fram tillögur innan þingflokks VG um breytta forgangsröðun, nýja tekjuöflun og aukin útgjöld í þágu velferðar og bættra lífskjara. Þessar tillögur hlutu ekki hljómgrunn innan þingflokks Vinstri grænna. Við munum því hvorki styðja fjárlagafrumvarpið né breytingartillögur við það þar sem þær ganga of stutt að okkar mati og draga ekki úr kreppunni.“
Þingmenn ríkisstjórnarflokkanna eru samtals 35. Ljóst er því að fjárlagafrumvarpið nýtur meirihlutastuðnings á Alþingi því að án Lilju, Atla og Ásmundar styðja 32 þingmenn frumvarpið. 63 þingmenn sitja á Alþingi. Þess má geta að fyrr á þessu ári gekk Þráinn Bertelsson til liðs við þingflokk VG, en hann var áður í stjórnarandstöðu.