„Það verður hellingur af loðnu í vetur, það er ég viss um,“ sagði Guðlaugur Jónsson, skipstjóri á Ingunni AK, í gærmorgun þegar verið var að ljúka löndun á 13-1400 tonnum af loðnu á Vopnafirði.
Hann sagði að talsvert væri af loðnu á miðunum út af Rifsbanka djúpt norður af Melrakkasléttu. Hann sagðist sannfærður um að kvótinn yrði aukinn í framhaldi af frekari rannsóknum.
„Það er lykilatriði að mæla þetta upp á nýtt,“ sagði Guðlaugur. „Undanfarin ár hefur ekkert fundist fyrr en í desember og janúar, en nú er allt annað ástand á loðnunni. Auk þess er loðnan óvenjustór og meðalstærðin 17 sentimetrar. Þeir segja karlarnir sem lengst hafa unnið í frystihúsinu hér á Vopnafirði að loðnan sé með ólíkindum stór og vel haldin,“ segir hann í Morgunblaðinu í dag.