Útlit fyrir versnandi veður

Búist er við stormi suðaustantil á landinu, en víðast hvar …
Búist er við stormi suðaustantil á landinu, en víðast hvar á landinu á morgun. mbl.is/Ómar Óskarsson

Útlit er fyrir versnandi veður á landinu í nótt og í fyrramálið en ekkert ferðaveður er í Hamarsfirði sem og í Suðursveit. Ófært er um Þvottár- og Hvalnesskriður vegna veðurs.Veðurstofa Íslands hefur gefið út stormviðvörun fyrir nánast allt landið á morgun.

Þæfingsfærð og stórhríð er á Möðrudalsöræfum. Ófært og óveður er á Fjarðarheiði og þungfært og óveður á Vatnskarði eystra. Þungfært og óveður er á Fagradal og á Oddskarði og lítið skyggni. 

Á Norðausturlandi er hálka, hálkublettir eða snjóþekja á flestum leiðum þar er líka éljagangur. Hálka og éljagangur er á Öxnadalsheiði. Þæfingsfærð og óveður er á Hólasandi og hálka og óveður á Mývatnsheiði. Óveður er á Sandvíkurheiði.

Á Suðurlandi, Vesturlandi og Vestfjörðum eru flestir vegir auðir.

Dimm él verða áfram frá Siglufirði og Ólafsfirði austur um á Austfirði. Mjög hvasst er á Austfjörðum og Suðausturlandi líkt og verið hefur í dag. Staðbundið hviðuveður við þjóðveginn frá Suðursveit austur í Breiðdal og má gera ráð fyrir allt að 40-50 m/s í verstu hnútunum sem lagast lítið eitt síðar í kvöld. Snemma í fyrramálið fer veður versnandi á Norðurlandi með hríð og takmarkað skyggni, samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert