Samband ungra sjálfstæðismanna vilja að Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra og Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra víki úr ríkisstjórninni vegna framgöngu þeirra í Icesave-málinu.
Í ályktun segir að ungir sjálfstæðismenn hafni því að þeirra kynslóð, og kynslóða barna þeirra, verði bundin á skuldaklafa Icesave án þess að réttmætur grundvöllur sé til þess og að þær séu undirseldar mikilli áhættu um endanlega fjárhæð þeirra skulda.
„Ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna hefur nú lagt fram ný drög að samningi við Bretland og Holland vegna Icesave innlánsreikninganna. Það liggur fyrir að vaxtakjör hans og greiðslutími er miklu hagstæðari fyrir Ísland en mælt var fyrir um í þeim samningi sem ríkisstjórnin lagði fram á síðasta ári. Þetta og styrking krónunnar veldur því að samningurinn gæti verið allt að 432 milljörðum hagstæðari en sá fyrri.
Ekki er ástæða til að draga í efa að þau kjör sem hinn nýi samningur geri ráð fyrir sé bestu mögulega kjör. Grundvallarspurningin er hinsvegar ekki hvernig og á hvaða kjörum eigi að greiða kröfur Bretlands og Hollands, heldur hvort. Þeirri grundvallarspurningu er enn ósvarað. Þrátt fyrir betri kjör eru aðalefnisþættir samningsins þeir sömu og voru í fyrri samningnum. Enn er gert ráð fyrir að sú skylda verði lögð á íslenska skattgreiðendur að greiða tuga milljarða kröfu sem veruleg lagaleg óvissa er um að þeim beri skylda til að greiða.
Nýju drögin sýna glögglega að svartagalsraus ríkisstjórnarinnar, um að Ísland yrði á heljarþröm ef fyrri samningurinn yrði ekki samþykktur, byggði í besta falli á vanþekkingu og var í versta falli uppspuni frá rótum. Íslensk fyrirtæki hafa ekki orðið fyrir vandamálum erlendis þótt Icesave deilan hafi verið óleyst og tiltrú á Íslandi erlendis virðist ekki hafa minnkað þótt fyrri samningur hafi verið felldur í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þannig má nefna að skuldatryggingarálag ríkissjóðs hefur lækkað úr 447 punktum í 271 frá atkvæðagreiðslunni, eða um 176 punkta. Þetta sýnir glögglega fram á algert getuleysi ríkisstjórnarinnar til að gæta hagsmuna þjóðarinnar gagnvart erlendum ríkjum og til að skilja þau viðfangsefni sem stjórnvöld þurfa nú að leysa.
Meðal annars af þessum ástæðum ber Steingrími J. Sigfússyni, fjármálaráðherra og Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra að víkja úr ríkisstjórn,“ segir í ályktuninni.