Einar K. Guðfinnsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, spurði þingmenn stjórnarflokkanna hvort þeir hefðu verið sofandi á þingflokksfundum þegar unnið var að undirbúningi fjárlagafrumvarpsins þar sem margir hefðu lýst andstöðu við lækkun framlaga til sjúkrahúsa á landsbyggðinni eftir að frumvarpið var lagt fram.
„Sváfum menn á þingflokksfundum þegar verið var að fara yfir frumvarpið eða var staðið þannig að kynningu í þingflokkunum að ekki var gerð grein fyrir því hverjar afleiðingar væru af þeim fjárlagarömmum sem markaðir voru og lagðir voru til grundvallar frumvarpi til fjárlaga?“ spurði Einar.
Þórunn Sveinbjarnardóttir, formaður þingflokks Samfylkingarinnar, sagði að við undirbúning málsins hefði málið verið kynnt með hefðbundnum hætti í þingflokki Samfylkingarinnar. Mönnum hefði verið ljós fjárlagaramminn, en ekki skipting framlaga til einstakra stofnana.
Einar K. sagði að þegar rammi fjárlaga væri lagður væri jafnan gerð grein fyrir megin línum. Í þessu fjárlagafrumvarpi hefði verið mörkuð ný stefna í heilbrigðismálum á landsbyggðinni og það væri undarlegt ef þingmönnum stjórnarflokkanna hefði ekki verið gerð grein fyrir því. Svo virtist sem þingflokkarnir hefðu heimilað að fjárlagafrumvarpið yrði lagt fram án þess að gera sér grein fyrir hvað stæði í því.
Í fárlagafrumvarpinu voru framlög til heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni skorin verulega niður. Mestur var niðurskurðurinn 40%. Nú hefur tillögunum verið breytt þannig að mestur er niðurskurðurinn 10%.