Fargjöld Strætó hækka

Fargjöld Strætó bs. munu hækka um á bilinu 5% til 25% um áramótin, þar á meðal hækkar eitt fargjald úr 280 krónum í 350 krónur. 

Svonefnd tímabilskort Strætó munu hækka á bilinu 14,2% til 14,8%. Minnst hækkun verður á 20 miða kortum barna og ungmenna.

Þetta er fyrsta gjaldskrárhækkun Strætó bs. frá janúar 2007, en frá þeim tíma hefur vísitala neysluverðs hækkað um u.þ.b. 37%. 

Í tilkynningu frá Strætó bs.  segir, að stjórn fyrirtækisins hafi samþykkt að hækka fargjöld  til að mæta því að, fargjaldatekjur Strætó hafi rýrnað um u.þ.b. helming að raunvirði frá stofnun Strætó bs. árið 2001 þar sem fargjöld hafi ekki haldið í við almenna verðlagsþróun frá þeim tíma.

Þá muni eigendur Strætó bs., sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu, jafnframt draga úr framlögum sínum  á næsta ári. Gert sé ráð fyrir að framlögin lækki um 5% milli áranna 2010 og 2011 og þar sem framlög eigendanna séu um 83% af tekjum Strætó þýði minni framlög að hagræða þurfi í rekstri.

Til að mæta því verður dregið úr þjónustu á þeim tíma sem fæstir nota strætó, á kvöldin og að morgni um helgar. Hins vegar verður ekki dregið úr akstri að degi til virka daga og þannig reynt að tryggja að þjónustuaðlögunin hafi áhrif á eins fáa notendur strætó og hægt er.

Ennfremur er gert ráð fyrir að Strætó muni bregðast við aukinni eftirspurn á annatímum með aukinni notkun stærri strætisvagna og fleiri viðbótarvagna þegar flestir eru á ferðinni. Nánari útfærsla á þjónustuaðlögun verður kynnt síðar, en gert er ráð fyrir að hún komi til framkvæmda í febrúar.

Vefur Strætó bs.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert