„Ég verð bara að vera rólegur hérna, þangað til eitthvað sljákkar,“ segir Jóhann Ragnarsson, bílstjóri hjá MS á Egilsstöðum, sem bíður nú af sér veðrið við áningarstað á Jökuldalsheiði, við vegamótin til Vopnafjarðar. Þar er hann búinn að vera síðan kl. 10 í morgun.
Kafaldsbylur er á heiðinni og skyggni tæpur metri að sögn Jóhanns. „Ég sé niður á jörðina hérna fyrir framan bílinn,“ segir hann í samtali við mbl.is. Allt sé hvítt. Jóhann lagði af stað norður til Akureyrar kl. 8:30 í morgun og til stóð að hann sneri aftur til Egilsstaða í kvöld.
„Ég ligg bara í koju og bíð. Sofna bara við rokið í bílnum,“ segir Jóhann og bætir við: „Ég er með tonn af rjóma og slatta af osti.“ Hann er því sallarólegur og með nóg í svanginn ef í harðbakkann slær.
Jóhann hefur ekið fyrir MS í tvö og hálft ár og segist aldrei áður hafa þurft að stöðva á miðri leið. Aftur á móti hafi tvisvar sinnum verið hætt við ferðir vegna vondrar veðurspár. Jóhann segist reikna með því að geta lagt aftur í hann seinni partinn í dag.
„Í morgun þegar ég lagði af stað þá virtist þetta vera allt saman að ganga niður, en svo þegar ég var kominn hingað þá var þetta skollið á aftur,“ segir hann og bætir við að hann hafi stöðvað á áningarstað og sé því ekki á sjálfum þjóðveginum. Því sé engin hætta að hann fái annan bíl á sig.
Aðspurður segist Jóhann hvorki hafa séð hreindýr né jólasveina upp á heiðinni. „Ég á nú alltaf von á því að þeir banki upp á,“ segir hann um jólasveinana. Það sé því aldrei að vita hvort Askasleikir eða Skyrgámur kíki í heimsókn til að skoða rjómabirgðirnar.
Skv. upplýsingum frá MS á Egilsstöðum eru fleiri flutningabílar fyrirtækisins í biðstöðu vegna veðurs, m.a. einn á Djúpavogi og tankbíll á Vopnafirði.