Alþingi samþykkti í dag frumvarp ríkisstjórnarinnar um að fyrningarfrestur verði styttur í 2 ár á þeim kröfum eða þeim hluta krafna sem ekki fást greiddar við gjaldþrotaskipti.
43 þingmenn stjórnarflokkanna, Framsóknarflokksins og Hreyfingarinnar greiddu atkvæði með frumvarpinu en þingmenn Sjálfstæðisflokksins sátu hjá.
Ögmundur Jónasson, dómsmálaráðherra, sagði að um væri mikil og nauðsynleg réttarbót sem styrkti samningsstöðu skuldugs fólks gagnvart kröfuhöfum sínum.
Eygló Harðardóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, sagði að þetta væri eitt af helstu baráttumálum Hagsmunasamtaka heimilanna og því væri þetta mikill gleðidagur og mikil réttarbót.
Sigurður Kári Kristjánsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagði að markmið frumvarpsins væru góð og gild, að hjálpa þeim sem hefðu lent í gjaldþroti til að komast á lappirnar. Frumvarpið gagnaðist hins vegar ekki venjulegu skuldugu fólki, sem hefði lent í árangurslausu fjárnámi, heldur helst þeim, sem voru framarlega í íslensku útrásinni fyrir hrun. Þeir muni ganga skuldlausir frá borði eftir tvö ár.