Efnahags- og skattanefnd Alþingis afgreiddi í kvöld stjórnarfrumvarp um gengistryggð lán og leggur til að gerðar verði á því ýmsar breytingar. Meðal annars leggur nefndin til, að felld verði niður heimild fyrirtækja til að taka gengistryggð lán.
Tilurð frumvarpsins má rekja til hæstaréttardóma frá því í sumar sem lýstu gengistryggingu tilgreindra bílalánasamninga ólögmæta. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir því að veita öllum einstaklingum með gengistryggð bílalán og gengistryggð húsnæðislán sama rétt og fólst í dómi Hæstaréttar.