Breyting á lögum um gjaldþrotaskipti, samkvæmt frumvarpi dómsmálaráðherra sem var til 3. umræðu á þingi í gærkvöldi, gæti komið þeim betur sem lúra á einhverjum sjóðum en hinum sem eru slyppir og snauðir.
Þetta er mat alþingismannanna Sigurðar K. Kristjánssonar og Birgis Ármannssonar, sem skiluðu séráliti í allsherjarnefnd. Þeir telja að frumvarpið nái ekki markmiðunum sem að var stefnt. Verði það að lögum muni það ekki hjálpa venjulegu fólki í alvarlegum fjárhagsvanda.
Til að gjaldþrotaskipti fari fram þurfi kröfuhafi að leggja fram 250.000 kr. tryggingu fyrir skiptakostnaði. Þeir segja að reynslan sýni að kröfuhafar láti í langflestum tilvikum nægja að krefjast árangurslauss fjárnáms hjá einstaklingum sem ekki geti greitt kröfur. Í fæstum tilvikum leiði það til gjaldþrotaskipta.