Ef marka má samtöl við almenna flokksfélaga í Vinstrihreyfingunni – grænu framboði virðist sem hjáseta þingmannanna þriggja, þeirra Atla Gíslasonar, Ásmundar Einars Daðasonar og Lilju Mósesdóttur, við afgreiðslu fjárlaga í gær falli í ágætlega frjóan jarðveg, a.m.k. hjá ákveðnum hluta VG.
Afar óvenjulegt þykir, og í raun nánast óþekkt, að einstakir stjórnarþingmenn sitji hjá við lokaatkvæðagreiðslu um frumvarp til fjárlaga.
Mikill titringur er nú meðal stjórnarþingflokkanna, að því er fram kemur í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag. Samkvæmt heimildum blaðsins telja margir þingmenn Samfylkingarinnar ótækt að stjórnarþingmenn gefi sig út fyrir að fylgja eigin sannfæringu þegar hjáseta þeirra gefur í raun til kynna samstöðuleysi meirihlutans.Þá kveða heimildarmenn Morgunblaðsins innan VG hjásetu „órólegu deildarinnar“ lið í hefnd þeirra fyrir þau átök um Evrópumálin sem áttu sér stað á flokksráðsfundi VG í haust. Þar sagði Atli Gíslason flokksforystuna hafa unnið „pyrrhosarsigur“ og vísaði þar til þess að sá sigur yrði henni dýrkeyptur.