Bæjarstjórn talin hafa brotið lög

Frá Álftanesi
Frá Álftanesi mbl.is/Golli

Fjárhaldsstjórn Sveitarfélagsins Álftaness telur að sveitarstjórn hafi ekki farið að lögum við ráðstöfun fjár sem sveitarfélagið fékk vegna sölu eigna á síðasta kjörtímabili. Fjárhaldsstjórnin telur nauðsynlegt að leysa sveitarfélagið alfarið undan öllum leiguskuldbindingum, sem eru utan efnahags.

Í niðurstöðum skýrslu fjárhaldsstjórnar segir að til að leysa fjárhagsvanda sveitarfélagsins Álftanes þurfi að leysa sveitarfélagið alfarið undan öllum leiguskuldbindingum, sem eru utan efnahags. Samkvæmt ársreikning sveitarfélagsins 2009 eru þessar skuldbindingar 4,1 milljarður.

Þetta þýðir að skuldir og skuldbindingar sveitarfélagsins fari úr 518% af tekjum í árslok 2009 í rétt innan við 250%í árslok 2010. Fjárhagsáætlun Álftaness sýnir að sveitarfélagið á að geta staðið undir skuldum að þessari stærð. Hins vegar er ljóst að ekki verður mikið svigrúm til framkvæmda og/eða viðhalds. Til þessa að sveitarfélagið geti staðið í skilum þarf að vera a.m.k. 5% álag á útsvar fram til ársins 2014. Með sameiningu við annað sveitarfélag ynnist hins vegar það mikil hagræðing að hægt ætti að vera að leggja 5% álagið niður. Því er það niðurstaða fjárhaldsstjórnar að samhliða þessum aðgerðum þurfi sveitarfélagið að sameinast öðru sveitarfélagi. Nú standa yfir viðræður við viðkomandi aðila um tillögu fjárhaldsstjórnar um lausn á fjárhagsvanda sveitarfélagsins er varða m.a. leiguskuldbindingar þess. Stefnt er að því að niðurstaða í þeim viðræðum liggi fyrir fyrir jól.

Sölu eigna varið í rekstur

Fjárhaldsstjórnin fjallar sérstaklega um sölu eigna sveitarfélagsins, en sveitarfélagið seldi fastafjármuni á síðastliðnu kjörtímabili fyrir kr. 645.150.000 og fékk þar af greitt í peningum kr. 448.650.000. Þessu fé hefur hvorki verið varið til að greiða niður skuldir né til varanlegrar fjárfestingar heldur til þess að standa undir daglegum útgjöldum sveitarfélagsins, þar sem veltufé frá rekstri var neikvætt á árunum 2006 til 2009 um alls kr. 606,4 millj.

Vatnsveitan var seld fyrir síðasta kjörtímabil eða árið 2004. Auk þessa hefur sveitarfélagið tekið við hlutabréfum sem greiðslu við sölu á fastafjármunum, en þessi hlutabréfaeign veldur árlegum útgjöldum hjá sveitarfélaginu sem nemur kr. 50,9 millj. miðað við gengi og verðlag í júní 2010.

Í skýrslunni segir: „Ekki verður annað séð en að þær ráðstafanir sem hér hefur verið lýst varðandi sölu fasteigna og veitukerfa sveitarfélagsins og meðferð söluandvirðisins sé ekki í samræmi við þær almennu skyldur varðandi meðferð fjármuna, sem hvíla á sveitarfélögum, en í því sambandi er bent á 1. mgr. 64. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998 þar sem segir: „Sveitarstjórn skal gæta ábyrgðar í meðferð fjármuna sveitarfélagsins og tryggja örugga ávöxtun þeirra.“

Allri fastri yfirvinnu sagt upp

Í skýrslunni eru lagðar fram tillögur um sparnað í rekstri á næsta ári. Segja á upp allri fastri yfirvinnu starfsmanna sveitarfélagsins. Skera á niður kostnað við Álftanesskóla um 44,5 milljónir. Tekið er fram að allar greiðslur umfram kjarasamninga verði felldar niður. Gert er ráð fyrir að niðurgreiðslum á mat til nemenda verði hætt. Skera á niður í rekstri leikskólans um 10,2 milljónir og gert er ráð fyrir hækkun gjalda.

Skera á niður á bæjarskrifstofu um 11,6 milljónir og í áhaldahúsinu um 7,7 milljónir. Störfum í áhaldahúsinu verður fækkað um tvö. Framlög til tónlistarskólans verða lækkuð um 17,5 milljónir.

Flestum aðgerðum hefur verið hrundið í framkvæmd

Í lokaorðum skýrslunnar kemur fram að eftirfarandi sé niðurstaða fjárhaldsstjórnar:

  1. Fara þarf í verulegar hagræðingaraðgerðir í rekstri sveitarfélagsins, skv. meðfylgjandi fjárhagsáætlun. Flestum þessara aðgerða hefur nú þegar verið hrundið í framkvæmd. Sveitarfélagið geri greiðsluáætlun fyrir hvern mánuð næsta árs og að henni verði fylgt eftir. Sé rekstrarliður að fara fram úr áætlun verði þegar gripið til aðgerða.

  2. Sveitarfélagið verði leyst undan öllum leiguskuldbindingum skv. fyrir liggjandi tillögu þar um.

  3. Sveitarfélagið sameinist öðru sveitarfélagi fyrir mitt næsta ár.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert