Bæjarstjóri Mosfellsbæjar og framkvæmdastjóri Prima Care ehf. hafa undirritað samninga um lóð vegna fyrirhugaðrar byggingar Prima Care ehf. á einkasjúkrahúsi og hóteli í Mosfellsbæ. Verkefnið mun skapa 600-1000 ný störf auk 250-300 starfa á byggingartíma og er talið að það muni kosta um 150 milljónir Bandaríkjadala, sem nemur um 17 milljörðum íslenskra króna.
Undirritaðir voru tveir samningar, annars vegar lóðarleigusamningur milli Mosfellsbæjar og Prima Care þar sem gert er ráð fyrir lóðarleigu samkvæmt gjaldskrá Mosfellsbæjar og hins vegar kaupréttarsamningur þar sem Prima Care er veitt heimild til þess að kaupa lóðina á tilteknum tímapunkti og að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Samningarnir eru undirritaðir með fyrirvara um samþykki bæjarráðs, samkvæmt fréttatilkynningu.
„Um er að ræða stofnun einkarekins liðskiptasjúkrahúss og hótels fyrir erlenda sjúklinga í Mosfellsbæ. Undirbúningur verkefnisins hefur verið í gangi sl. tvö ár og hyllir nú undir að hönnun spítalans geti hafist. Alls er gert ráð fyrir 80-120 rúma sjúkrahúsi með 4 skurðstofum sem anna mun 3.000-5.000 aðgerðum á ári. Markhópurinn er fyrst og fremst sjúklingar í Bandaríkjunum," segir í tilkynningu.
Hótelið verður 250-300 rúma hótel og gert er ráð fyrir 6.000-10.000 gestum árlega.
Gert er ráð fyrir að árlegar tekjur fyrirtækisins verði í kring um 120 milljónir dala, sem samsvarar um 14 milljörðum íslenskra króna sem gerir fyrirtækið að einu af 40 stærstu fyrirtækjum landsins, segir ennfremur í tilkynningu.
Prima Care ehf er íslenskt fyrirtæki. Meðal þeirra sem standa að því eru Gunnar Ármannsson framkvæmdastjóri, Finnur Snorrason yfirlæknir og sérfræðingur í bæklunarlækningum, Guðbjörg Edda Eggertsdóttir, forstjóri Actavis á Íslandi, Þórður Sverrisson, eigandi Lasersjón, Orkuhúsið Stoðkerfi, Sjúkraþjálfun Íslands, Íslensk myndgreining og Ísaga – Linde Health Care.
Erlendir bakhjarlar verkefnisins eru Shiboomi, sem er bandarískt fyrirtæki, Oppenheimer, svissneskt fjármögnunarfyrirtæki, Hill International, bandarískt ráðgjafafyrirtæki á sviði byggingaframkvæmda, Clifford Chance, sem er bresk lögmannsstofa og loks arkitektinn Carlos Zapata.