„Samþykktum að málið færi til þingsins“

Ögmundur Jónasson dóms- og mannréttindaráðherra.
Ögmundur Jónasson dóms- og mannréttindaráðherra. Ómar Óskarsson

Ögmundur Jónasson, dómsmála- og mannréttindaráðherra, segir að það hafi verið „samdóma álit allra ráðherra í ríkisstjórn að láta drögin að nýju Icesave-samkomulagi ganga til Alþingis til umfjöllunar þar.“ Hann svaraði því hins vegar ekki beint hvort allir ráðherrar og þingmenn stjórnarflokkanna hefðu lýst stuðningi við málið.

Guðlaugur Þór Þórðarson, alþingismaður Sjálfstæðisflokks, spurði Ögmund um málið á Alþingi í morgun. Hann vildi vita hvort málið hefði verið samþykkt í ríkisstjórn og af þingflokkum stjórnarinnar. Ögmundur sagðist vona að þingmenn væru tilbúnir til að taka málefnalega á málinu og færu ekki ofan í pólitískar skotgrafir.

Ögmundur var líka spurður hvort hann vildi að þetta mál færi í þjóðaratkvæðagreiðslu, en hann studdi að fyrri samningur um Icesave færi í þjóðaratkvæðagreiðslu. Hann sagði að mál færu í þjóðaratkvæðagreiðslu „ef málið væri gríðarlega umdeilt á Alþingi eða í samfélaginu“. Síðasti samningur hefði farið í þjóðaratkvæðagreiðslu eftir að 60-70 þúsund manns hefðu farið fram á slíka atkvæðagreiðslu.

Ögmundur sagði að þau drög að samkomulagi sem nú lægju á borðinu  væru allt annars eðlis og miklu hagfelldari en fyrri samningar. Nú væri það verkefni þingsins að leggjast málefnalega yfir samningana. Viðbrögð í samfélaginu færu eftir þeirri vinnu. „Viðbrögð mín ráðast af málefnalegri skoðun á málinu,“ sagði Ögmundur og bætti við, að Guðlaugur Þór væri ekki tilbúinn til slíkrar málefnalegrar skoðunar.

„Það er dapurlegt hvernig Sjálfstæðisflokkurinn er að taka niður um sig í Icesave-málinu," sagði Ögmundur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert