Segist styðja ríkisstjórnina

Lilja Mósesdóttir.
Lilja Mósesdóttir.

Lilja Mósesdóttir, þingmaður Vinstri grænna, segist áfram styðja ríkisstjórnina, sérstaklega til  góðra verka, en hún hafi ekki verið reiðubúin til að samþykkja fjárlagafrumvarp sem hún hefði ekki sannfæringu fyrir. Lilja sat hjá í atkvæðagreiðslu á Alþingi um fjárlög fyrir næsta ár ásamt tveimur öðrum þingmönnum VG.

Þetta kom fram í viðtali við Lilju í Kastljósi Sjónvarpsins. Lilja sagðist ekki hafa verið tilbúin til að samþykkja frumvarp, sem hún fékk ekki að sjá áður en það kom inn í þingið og hefði síðan reynt árangurslaust að breyta með því að leggja fram tillögur í þingflokki VG sem voru í samræmi við ályktanir flokksráðs VG. 

Þegar Lilja var spurð hvort hún ætlaði að sitja áfram í  þingflokki Vinstri grænna sagðist hún hafa fundið fyrir stuðningi við sín sjónarmið innan þingflokksins og teldi sig eiga samleið með mörgum stefnumálum Vinstri grænna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka