Flutningabíll sem dró gámavagn með 40 feta löngum gámi fór útaf í Fáskrúðsfirði um kl. 19.00 í kvöld og valt. Talið er að blindhríð hafi valdið óhappinu. Ökumaðurinn var fluttur á Fjórðungssjúkrahúsið í Neskaupstað til aðhlynningar, en meiðsl hans voru talin vera minniháttar.
Flutningabíllinn var á suðurleið frá Fáskrúðsfirði, fullhlaðinn saltaðri síld í tunnum, og var nýlagður af stað þegar óhappið varð. Starfsmenn Loðnuvinnslunnar komu fljótt á vettvang og björguðu farminum.