Óveður geysar nú víða um land. Á mörgum stöðum hefur orðið tjón og eru björgunarsveitarmenn víða um land fólki til aðstoðar.
Á Suðurnesjum sinntu björgunarsveitarmenn 25 verkefnum á sjötta tímanum í kvöld, að sögn Ólafar Snæhólm Baldursdóttur, upplýsingafulltrúa Landsbjargar.
Mikil ófærð er innanbæjar á Akureyri, við Sandgerðishöfn fjúka fiskikör á bíla og í Hveragerði er þakið á Eden að losna.
Á Selfossi er mikil þoka og í Skarðshlíð undir Eyjafjöllum fýkur járn af gömlum söluskála. Þar urðu björgunarsveitarmenn frá að hverfa vegna veðurofsa.
Í Húnaþingi vestra aðstoða björgunarsveitarmenn bílstjóra, sem hafa lent í blindbyl. Flotbryggja liðaðist í sundur í Sandgerði og bátar voru fluttir í skjól.
Undir Eyjafjöllum fauk járn af gömlu sjoppunni í Skarðshlíð. Björgunarsveit varð frá að hverfa þar sem veður var kolvitlaust og skæðardrífa af járni fjúkandi um svæðið. Sæta á færis að fergja járnið um leið og það telst óhætt.
Á Akureyri var björgunarsveitin í aðstoð innanbæjar þar sem bílar sátu fastir í ófærð. Einnig sátu rúta og fólksbíll föst í Víkurskarði. Þá fylgdi björgunarsveitin á Dalvík bíl með veikt barn til Akureyrar
Vegagerðin varar vegfarendur við því að miklar vindhviður eru í öllum landshlutum og stórhríð og ekkert ferðaveður er á Norðurlandi og á Austurlandi.