Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra sagði að þingmenn sem styddu ríkisstjórn yrðu annars vegar að vera tilbúnir til að verja hana falli og hins vegar að styðja fjárlagafrumvarp hennar.
„Þeir sem styðja ríkisstjórn verða að uppfylla tvennt að mínu viti. Þeir verða að vera tilbúnir til að verja hana vantrausti og þeir verða að styðja fjárlagafrumvarp. Ef einhverjir einstaklingar gera það ekki þá hljóta þeir að velta því fyrir sér hvar í heiminum þeir séu staddir, en þeir verða að gera það upp við sig sjálfir,“ sagði Össur á Alþingi í morgun.
Ögmundur Jónasson, dóms- og mannréttindaráðherra, var líka spurður um afstöðu þriggja þingmanna VG sem ekki studdu fjárlagafrumvarpið. Hann sagðist treysta þingmönnunum, Lilju Mósesdóttur, Atli Gíslasyni og Ásmundi Einari Daðasyni, „ágætlega til að berjast fyrir þeim stefnumarkmiðum og hugsjónum sem þeir lofuðu sínum kjósendum þegar þeir voru kjörnir til Alþingis.“ Hann sagði að hvað varðar stuðning við ríkisstjórn þá reyndi á hann þegar borið væri fram vantraust á hana.
Ögmundur sagðist vilja vara við því að leiða málefnalegan ágreining í persónulegar skotgrafir eins og reynt væri að gera.
Sigurður Kári Kristjánsson alþingismaður sagði athyglisvert að Ögmundur vildi ekki svara spurningum sínum um hvort hann væri sammála forsætisráðherra sem sagði, að afstaða þremenninganna væri ekki stórmannleg og að hún gæfi lítið fyrir rök þeirra. Sigurður Kári sagði ekki hægt að túlka þetta á annan hátt en að Ögmundur væri að snúa baki við þessum þremur félögum sínum.