Eldurinn slökktur í álverinu

Mikill eldur logaði í spennistöðinni í eina fimm tíma.
Mikill eldur logaði í spennistöðinni í eina fimm tíma. mynd/Halla Sigrún Sveinbjörnsdóttir

Eldurinn í spennistöð álvers Alcoa-Fjarðaáls í Reyðarfirði var slökktur laust fyrir klukkan 22 í kvöld. Um klukkan 19 í kvöld var byrjað að setja straum á álverið en hann fór af þegar sprenging varð í spennistöðinni laust fyrir klukkan 17 í dag.

Að sögn Jónasar Wilhelmssonar, yfirlögregluþjóns á Eskifirði, gekk vel að slökkva eldinn eftir að byrjað var að dæla á hann kvoðu með dælubíl frá slökkviliði Flugstoða á Egilsstaðaflugvelli.  Slökkvilið Fjarðabyggðar og slökkvilið Alcoa-Fjarðaáls unnu við slökkvistarfið. Áfram verður dælt vatni á afriðilinn, sem sprakk í dag og verður vakt á svæðinu í nótt.  

Ekki er vitað hvað olli sprengingunni en málið er í rannsókn.  Ekki er heldur vitað um tjón vegna eldsins  eða hvaða áhrif hann muni hafa á framleiðslu álversins.

Allur straumur fór af álverinu þegar sprengingin varð. Að sögn Ernu Indriðadóttur, upplýsingafulltrúa Alcoa-Fjarðaáls, tókst starfsmönnum álversins með miklu snarræði að ná tökum á ástandinu og  þeir byrjuðu að koma straumi á álverið upp úr klukkan 19. Álverið þolir að vera rafmagnslaust í um fimm klukkustundir áður en hætta er á alvarlegu tjóni vegna rafmagnsleysisins en ál getur storknað í kerjunum.

Fimm afriðlar eru í spennistöðinni sem er við enda kerskála álversins.  Eldur kviknaði í einum afriðlanna. Þeir eru kældir með olíu og var mikill eldur í afriðlinum. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert