Slökkvilið Fjarðabyggðar og slökkvilið álvers Alcoa-Fjarðaáls vinna nú að því að ráða niðurlögum eldsins í risastórum spenni sem kviknaði í nú síðdegis. Sprenging varð í spenninum sem olli eldinum. Slökkviliðin hafa athugað með froðubirgðir hjá nálægum slökkviliðum, að sögn lögreglunnar á Eskifirði.
Sprenging varð í spennistöð við enda kerskála álvers Alcoa-Fjarðaáls á Reyðarfirði nú síðdegis. Engin slys urðu á fólki. Rafmagnið fór af álverinu og er töluverður eldur enn í spennistöðinni. Samkvæmt upplýsingum mbl.is er verið að rýma hluta af álverssvæðinu vegna sprengihættu.
Að sögn lögreglunnar á Eskifirði er spennirinn sem sprengingin varð í fullur af olíu. Talsvert lið vinnur að slökkvistarfinu og er enginn skortur á mannskap við slökkvistarfið eða löggæslu á staðnum.
Það þykir mest um vert að engin slys urðu á fólki við óhappið. Álverið er allt myrkvað og er rafmagnslaust. Fólk var beðið um að vera ekki í nágrenni álversins en fjöldi fólks sat í bílum sínum og fylgdist álengdar með slökkvistarfinu.