Netþjónabú boðin velkomin

Úr gagnaveri Thor Center, sem nýlega var opnað í Hafnarfirði.
Úr gagnaveri Thor Center, sem nýlega var opnað í Hafnarfirði.

„Með þessu er stórt skref stigið í átt til nýrrar atvinnugreinar á Íslandi. Netþjónabúin eru boðin velkomin á Íslandi og komi þau sem flest," sagði Kristján L. Möller, þingmaður Samfylkingarinnar, á Alþingi í dag þegar atkvæði voru greidd um breytingar á lögum um virðisaukaskatt.

Í frumvarpinu, sem væntanlega verður að lögum síðar í dag, felst að ekki verði lagður virðisaukaskattur á selda þjónustu til erlendra aðila. Þá verður ekki lagður virðisaukaskattur á innflutning erlendra aðila á netþjónum, sem hýsa á í íslenskum gagnaverum.

Samtök íslenskra gagnavera lögðu mikla áherslu á að ná þessum tveimur atriðum fram og sögðu að án þeirra væru íslensk gagnaver ekki samkeppnishæf. 

Þingmenn fögnuðu almennt frumvarpinu en samþykkt var með 51 atkvæði að senda það til þriðju umræðu. Fjórir þingmenn Framsóknarflokksins og einn þingmaður Hreyfingarinnar sátu hins vegar hjá. Vigdís Hauksdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, gagnrýndi að sett væru lög án þess að Eftirlitsstofnun EFTA hefði veitt álit sitt á því hvort í því felist ólögmæt ríkisaðstoð að fella niður virðisaukaskatt af gagnaveraþjónustu.

„Þessi fyrirtæki ætla ekki að hafa heimilisfesti hér á landi og borga þess vegna ekki tekjuskatt af rekstri sínum. Nú á að fella niður virðisaukaskatt, hvað á að standa eftir í landinu þegar þessi fyrirtæki eru farin að starfa?" spurði Vigdís. 

Katrín Júlíusdóttir, iðnaðarráðherra, sagði að  með lagabreytingunum væri verið að tryggja íslenskum gagnaverum jafna samkeppnisstöðu við erlend gagnaver varðandi virðisaukaskatt, útflutning á þjónustu og búnað í eigu viðskiptavina.

Katrín sagði, að ekki væri talið að um væri að ræða ólögmæta ríkisaðstoð í skilningi samningsins um Evrópska efnahagssvæðið en til að gæta fyllstu varúðar myndu stjórnvöld leita staðfestingar Eftirlitsstofnunar EFTA á því. 

Ragnheiður Elín Árnadóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagði að þetta væri eina jákvæða skattabreytingin, sem ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar hefði staðið að og ástæðan væri ef til vill sú, að þingið hefði tekið völdin af ríkisstjórninni og knúið fram þessar breytingar.

Í virðisaukaskattsfrumvarpinu er einnig ákvæði um að framlengja um eitt ár heimild til að endurgreiða að fullu virðisaukaskatt af vinnu við viðhald eða endurbætur á húsnæði.  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert