Netþjónabú boðin velkomin

Úr gagnaveri Thor Center, sem nýlega var opnað í Hafnarfirði.
Úr gagnaveri Thor Center, sem nýlega var opnað í Hafnarfirði.

„Með þessu er stórt skref stigið í átt til nýrr­ar at­vinnu­grein­ar á Íslandi. Netþjóna­bú­in eru boðin vel­kom­in á Íslandi og komi þau sem flest," sagði Kristján L. Möller, þingmaður Sam­fylk­ing­ar­inn­ar, á Alþingi í dag þegar at­kvæði voru greidd um breyt­ing­ar á lög­um um virðis­auka­skatt.

Í frum­varp­inu, sem vænt­an­lega verður að lög­um síðar í dag, felst að ekki verði lagður virðis­auka­skatt­ur á selda þjón­ustu til er­lendra aðila. Þá verður ekki lagður virðis­auka­skatt­ur á inn­flutn­ing er­lendra aðila á netþjón­um, sem hýsa á í ís­lensk­um gagna­ver­um.

Sam­tök ís­lenskra gagna­vera lögðu mikla áherslu á að ná þess­um tveim­ur atriðum fram og sögðu að án þeirra væru ís­lensk gagna­ver ekki sam­keppn­is­hæf. 

Þing­menn fögnuðu al­mennt frum­varp­inu en samþykkt var með 51 at­kvæði að senda það til þriðju umræðu. Fjór­ir þing­menn Fram­sókn­ar­flokks­ins og einn þingmaður Hreyf­ing­ar­inn­ar sátu hins veg­ar hjá. Vig­dís Hauks­dótt­ir, þingmaður Fram­sókn­ar­flokks­ins, gagn­rýndi að sett væru lög án þess að Eft­ir­lits­stofn­un EFTA hefði veitt álit sitt á því hvort í því fel­ist ólög­mæt rík­isaðstoð að fella niður virðis­auka­skatt af gagna­veraþjón­ustu.

„Þessi fyr­ir­tæki ætla ekki að hafa heim­il­is­festi hér á landi og borga þess vegna ekki tekju­skatt af rekstri sín­um. Nú á að fella niður virðis­auka­skatt, hvað á að standa eft­ir í land­inu þegar þessi fyr­ir­tæki eru far­in að starfa?" spurði Vig­dís. 

Katrín Júlí­us­dótt­ir, iðnaðarráðherra, sagði að  með laga­breyt­ing­un­um væri verið að tryggja ís­lensk­um gagna­ver­um jafna sam­keppn­is­stöðu við er­lend gagna­ver varðandi virðis­auka­skatt, út­flutn­ing á þjón­ustu og búnað í eigu viðskipta­vina.

Katrín sagði, að ekki væri talið að um væri að ræða ólög­mæta rík­isaðstoð í skiln­ingi samn­ings­ins um Evr­ópska efna­hags­svæðið en til að gæta fyllstu varúðar myndu stjórn­völd leita staðfest­ing­ar Eft­ir­lits­stofn­un­ar EFTA á því. 

Ragn­heiður Elín Árna­dótt­ir, þingmaður Sjálf­stæðis­flokks­ins, sagði að þetta væri eina já­kvæða skatta­breyt­ing­in, sem rík­is­stjórn Jó­hönnu Sig­urðardótt­ur og Stein­gríms J. Sig­fús­son­ar hefði staðið að og ástæðan væri ef til vill sú, að þingið hefði tekið völd­in af rík­is­stjórn­inni og knúið fram þess­ar breyt­ing­ar.

Í virðis­auka­skatts­frum­varp­inu er einnig ákvæði um að fram­lengja um eitt ár heim­ild til að end­ur­greiða að fullu virðis­auka­skatt af vinnu við viðhald eða end­ur­bæt­ur á hús­næði.  

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert