Fréttaskýring: Óbilgirni ESA og óvissa um störf

Óvissa er um framleiðslu á saltfiski fyrir Spán, Grikkland og …
Óvissa er um framleiðslu á saltfiski fyrir Spán, Grikkland og Ítalíu og óljóst hvernig markaðir þróast. mbl.is/Kristján

Alvarleg staða í saltfiskframleiðslu var til umræðu á fundi sjávarútvegsnefndar Alþingis í gærmorgun. Óvissa ríkir um hvert framhaldið verður í kjölfar á banni Eftirlitsstofnunar EFTA, ESA, við notkun fosfata við framleiðsluna. Þar kom fram að framleiðendur óttast að störf kunni að tapast og fiskur sem hefur verið unninn í salt fyrir Spán verði fluttur ferskur eða hausaður og heilfrystur á erlenda markaði.

Fundurinn var haldinn að frumkvæði Einars K. Guðfinnssonar og Jóns Gunnarssonar, þingmanna Sjálfstæðisflokksins. Auk nefndarmanna sátu fundinn forstjórar MAST og Matís, þrír fulltrúar framleiðenda og fulltrúar sjávarútvegs- og utanríkisráðuneyta. Einar K. Guðfinnsson sagði fundinn hafa verið mikilvægan og ljóst væri að staðan í greininni væri mjög alvarleg.

Ekki margir kostir í stöðunni

„Tvennt er efst í huga í þeim efnum,“ sagði Einar. „Annars vegar harkan og óbilgirnin sem einkennir framkomu ESA og Evrópusambandsins, en ESB hefur haft í hótunum. Sambandið hefur jafnvel hótað viðskiptaþvingunum af þessu tilefni og ég þekki tæpast önnur dæmi af hálfu Evrópusambandsins um svo ofsafengin viðbrögð.

Hins vegar virðist sú hætta vera fyrir hendi að vinnsla á fiski flytjist úr landi, störfum fækki hér á landi og verðmætasköpun minnki. Fram kom hjá framleiðendum að bannið gæti leitt til þess að fiskurinn yrði fluttur út ferskur eða frystur og unninn áfram á erlendum mörkuðum. Það er þröngt um á öðrum mörkuðum og þetta gæti haft miklar afleiðingar fyrir verðmætasköpun í þjóðarbúinu,“ sagði Einar.

Hátt hlutfall af þorski sem berst á land á Íslandi fer í söltun og Spánarmarkaðurinn er mikilvægastur fyrir þessar afurðir. Fosföt hafa síðustu ár verið notuð við framleiðslu á megninu af saltfiski sem farið hefur héðan til Spánar, Ítalíu og Grikklands. Framleiðendur segja ekki marga kosti í stöðunni fyrir svo mikla og verðmæta framleiðslu. Til viðbótar má nefna að Norðmenn hafa aukið aflaheimildir um 140 þúsund tonn af þorski á næsta ári.

Einar segir stjórnvöld og hagsmunaaðila í þröngri stöðu þar sem fosfötin væru ekki leyfð, hvorki sem aukefni né tæknilegt hjálparefni við saltfiskvinnslu. Stóra verkefnið væri að freista þess að fá banninu frestað meðan unnið væri að lausn.

Endanlegt svar eftir ár

Aukefnanefnd ESB er með málið til skoðunar, en að sögn Einars, er talið að það geti tekið allt næsta ár að fá endanlegt svar um hvort efnið verður leyft. Fosföt eru leyfð í vinnslu ýmissa annarra matvæla.

Um tveggja ára aðdragandi er að banninu, sem nú hefur verið tilkynnt. Í lok síðasta árs voru framleiðendur síðan varaðir við að nota fosföt og í framhaldi af því sótti fosfatframleiðandinn um leyfi fyrir þau hjá aukefnanefnd ESB. Fjallað var um erindið á tveimur fundum í fyrravetur og í framhaldinu var óskað eftir frekari gögnum. Þau liggja fyrir og til stóð að framleiðendur í Noregi, Færeyjum, Danmörku, Þýskalandi og hér á landi hefðu samflot um svör til aukefnanefndarinnar. Norðmenn hafa síðan helst úr lestinni, en umbeðin gögn frá Íslandi verða væntanlega send á næstunni.

Miðað við 13. desember

Jón Gíslason forstjóri segir að MAST muni ekki gera athugasemdir við saltfisk sem inniheldur fosföt hafi hann verið framleiddur áður en tilkynnt var um aðgerðir, þ.e. 13. desember.

Norðmenn hafa þegar byrjað eftirlit og gert fosföt upptæk á stöðum þar sem ekki er heimilt að framleiða vöru sem inniheldur fosföt. Þeir munu einnig hafa stöðvað dreifingu á afurðum sem innihalda efnin. ESA hefur óskað eftir samræmdum aðgerðum í löndum EES.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert