„Ríkisstjórnin stendur veikari eftir þetta en er kannski ekki í bráðri lífshættu,“ segir Birgir Guðmundsson, stjórnmálafræðingur við Háskólann á Akureyri, við Morgunblaðið um stöðu ríkisstjórnarinnar eftir atkvæðagreiðsluna á Alþingi á fimmtudag þar sem þrír þingmenn Vinstri-grænna sátu hjá við afgreiðslu fjárlagafrumvarpsins; þau Lilja Mósesdóttir, Atli Gíslason og Ásmundur Einar Daðason.
Fjárlögin voru samþykkt með 32 atkvæðum, eða eins naumum meirihluta og hægt er. Hafa þremenningarnir í VG tilheyrt „órólegu deildinni“ svonefndu innan þingflokksins, ásamt Ögmundi Jónassyni og Guðfríði Lilju Grétarsdóttur. Ögmundur greiddi atkvæði með frumvarpinu en einn viðmælenda blaðsins orðaði það svo að búið væri að „temja“ Ögmund. Er þannig talið að hann muni samþykkja nýja Icesave-samninginn. Guðfríður Lilja er í fæðingarorlofi og óvíst hvenær hún kemur aftur til starfa á þingi. Velta má fyrir sér hvort atkvæði hennar hefði fallið eins og hjá varamanni hennar á þingi, Ólafi Þór Gunnarssyni, en viðmælendur telja líklegt að hún fylgi frekar Ögmundi að málum.
Í umræðum á Alþingi í gær kom fram í máli Össurar Skarphéðinssonar utanríkisráðherra að stjórnarþingmenn yrðu að vera tilbúnir að verja stjórnina falli og styðja fjárlagafrumvarp hennar. „Ef einhverjir einstaklingar gera það ekki þá hljóta þeir að velta því fyrir sér hvar í heiminum þeir eru staddir, en þeir verða að gera það upp við sig sjálfir,“ sagði Össur á Alþingi en fyrir utan stjórnarráðshúsið lét hann hafa eftir sér í samtali við RÚV að hjáseta þingmanna VG væri að hluta til vantraustsyfirlýsing á ríkisstjórnina. Á sama stað var Steingrímur J. Sigfússon, formaður VG, spurður hvort einhver eftirmál yrðu og svar hans var: „Við skulum sjá til.“
Ummælin bera því glöggt vitni að þungt andrúmsloft ríkir á stjórnarheimilinu og fullkomin óvissa um hvernig ríkisstjórninni tekst að ná öðrum stórum málum í gegn á þingi, eins og t.d. Icesave.
Andstaða þremenninganna í VG er sögð bein afleiðing af nýlegum flokksstjórnarfundi flokksins, þar sem fram kom hörð gagnrýni almennra flokksmanna á forystuna. Einn félagi í VG orðaði það svo að ef aðeins ein skoðun ætti að vera uppi í flokknum væri illa komið fyrir honum. Taldi hann afstöðu Lilju, Atla og Ásmundar einfaldlega endurspegla vilja stórs hluta flokksmanna. Þá hefur þeim „grýlum“ verið haldið að órólegu deildinni innan VG að gera þurfi allt til að halda vinstristjórninni saman, þannig að Sjálfstæðisflokkurinn komist ekki til valda á ný.
Hann bendir jafnframt á að veðrabrigði á vinnumarkaðnum framundan geti reynst stjórnarsamstarfinu erfið. Allt frá árinu 1956 hafi vinstristjórnir allar strandað á málum er snerta efnahagsmál, vinnumarkaðinn og velferðarmál og tæpast náð að sitja heilt kjörtímabil. En skyldi sagan þá endurtaka sig varðandi þessa vinstristjórn? Birgir telur ekki miklar líkur á því, ríkisstjórnin sé lífseig og muni líklega halda velli. „En það verður ekki átakalaust og það verða miklar flugeldasýningar.“