Alþingi afgreiddi eftir hádegið ýmis skattafrumvörp ríkisstjórnarinnar sem lög. Um eitt þessara frumvarpa voru allir þingmenn sammála, um sérstakan skatt á fjármálafyrirtæki og greiddu allir viðstaddir þingmenn, 51 að tölu, atkvæði með frumvarpinu.
Gert er ráð fyrir að skatturinn skili ríkissjóði um 1 milljarði króna í tekjur á næsta ári. Gert er ráð fyrir að skattstofninn verði 0,041% af heildarskuldum samkvæmt skattframtali að frádregnum tryggðum innstæðum hjá Tryggingarsjóði innstæðueigenda og fjárfesta.
Í atkvæðagreiðslum um önnur skattafrumvörp sátu þingmenn stjórnarandstöðunnar ýmist hjá eða greiddu atkvæði á móti þeim. Alþingi samþykkti m.a. lög um ráðstafanir í ríkisfjármálum, um skatta og gjöld, um virðisaukaskatt og um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti og fleiru.
Þá samþykkti Alþingi einnig lög um vexti og verðtryggingu, sem fjallar um uppgjör svonefndra gengistryggðra lána.