Sonur staðgöngumóður fékk ríkisborgararétt

Frá Indlandi.
Frá Indlandi. Reuters

Drengur, sem indversk staðgöngumóðir fæddi fyrir íslensk hjón, var einn þeirra 43 einstaklinga sem Alþingi samþykkti í dag að veita íslenskan ríkisborgararétt.

Fram kom í Fréttablaðinu í morgun, að íslensk hjón, sem fengu indverska konu til að ganga með barn fyrir sig, væru föst í Mumbai á Indlandi með nýfæddan son vegna þess að þau fengju hann ekki viðurkenndan sem íslenskan ríkisborgara. 

Öllum þingmönnum var sent bréf um málið og kom það til kasta allsherjarnefndar Alþingis. Nefndarmenn lögðu fram frumvarp í dag þar sem lagt var til að 43 einstaklingar fengju ríkisborgararétt og var litli drengurinn,  Jóel Færseth Einarsson, þar á meðal, að því er kom fram í fréttum Útvarpsins.

Íslensku hjónin voru skráð sem foreldrar drengsins á indversku fæðingarvottorði hans og afsalaði staðgöngumóðirin sér öllum rétti með löglegum samningi sem var vottaður af lögmanni frá indverska ríkinu.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert