200.000 lítrar af olíu

Eldtungurnar teygðu sig upp úr logandi spenninum.
Eldtungurnar teygðu sig upp úr logandi spenninum. mbl.is/Helgi Garðarsson

Rúmlega 200.000 lítrar af olíu voru í rýminu þar sem eldur logaði í  spennistöð við álver Alcoa-Fjarðaáls í gærkvöldi. Slökkviliðsmönnum tókst að ráða niðurlögum eldsins með slökkvifroðu, að sögn Guðmundar Helga Sigfússonar, slökkviliðsstjóra í Fjarðabyggð. 

Öryggisvakt var sett á brunastaðnum þegar slökkvistarfi lauk um klukkan eitt í nótt. Þá var búið að slökkva eldinn og kæla spenninn. Enn lak olía úr spenninum í þar til gerða þró og var hún varin með slökkvifroðu. Talið var að olía gæti lekið í einhverja klukkutím áður en kælikerfi afriðilsins tæmdist. 

Afriðillinn sem kviknaði í við sprenginguna samanstendur af tveimur stórum spennum. Um 80.000 lítrar af olíu eru í kælikerfi hvors spennis og minni vökvabox að auki í rýminu þannig að þar sem eldurinn lék laus voru rúmlega 200.000 lítrar af olíu.

Ekki er vitað hvort olían sem brann kom úr annarri eða báðum einingunum. „Við sáum bara leka úr öðrum þeirra,“ sagði Guðmundur. „Það var ekki hægt að skoða hinn með neinu öryggi í gærkvöldi eða nótt. Þegar búið var að slökkva var vettvangurinn geymdur og bara passaður.“

Fimm afriðlar eru í spennistöðinni við enda kerskála álversins. Einingin sem kviknaði í er inni á milli tveggja aðliggjandi eininga. „Það er mjög krefjandi verkefni að takast á við svona og þarna eru menn að vinna við sprengihættu, því spennarnir geta sprungið,“ sagði Guðmundur.

Sprenging varð í spenninum laust eftir klukkan 17.00 í gær og við hana kviknaði eldurinn og rafmagn fór af álverinu. Slökkviliðsmenn voru farnir að takast á við eldinn og virtust vera að ná tökum á honum, að sögn Guðmundar, þegar önnur sprenging varð um kl. 17.30. Þá var svæðið rýmt vegna sprengihættunnar.

„Það þýddi að það náðist upp meiri eldur á meðan menn voru að meta aðstæður,“ sagði Guðmundur. „Þegar menn töldu óhætt að ráðast á eldinn með öllum tiltækum ráðum þá náðist hann niður og tókst að slökkva. Þá vorum við líka farnir að sjá betur hvernig aðstæður voru þarna inni.“

Alls tóku um 50 slökkviliðsmenn þátt í aðgerðum á vettvangi. Þar af voru 30 frá Slökkviliði Fjarðabyggðar, fjórir frá Brunavörnum á Austurlandi, 10-15 úr neyðarteymi Alcoa. Þá nutu slökkviliðsmenn fyrir austan ráðgjafar frá Slökkviliðið höfuðborgarsvæðisins og frá sérfræðingum Alcoa sem þekktu vel spenninn.

Slökkvilið Fjarðabyggðar og slökkvilið Alcoa fengu dælubíl frá Brunavörnum á Austurlandi sem er staðsettur á Egilsstaðaflugvelli. Hann er búinn langdrægri dælu sem getur komið slökkvifroðu langt frá sér.

Slökkviliðið á staðnum var með þrjá dælubíla. Notuð var slökkvifroða til að slökkva olíueldinn. Guðmundur sagði að menn hafi lært ýmislegt af þessum eldsvoða.

„Það er kannski fyrst og fremst að eiga meira af froðu. Bíllinn frá flugvellinum er með góðan stút sem kastar langt. Við fengum ekki að fara nálægt og þess vegna var gott að fá hann. Það er svolítið erfitt að kasta froðu langa leið,“ sagði Guðmundur.

Í morgun komu nýjar birgðir af slökkvifroðu austur með flutningabíl frá Olíudreifingu. Slökkviliðið er því búið að tryggja öryggið aftur með nægum froðubirgðum. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert