Á annað þúsund bíður flugs

Mikil röskun hefur verið á utanlandsflugi Icelandair og Iceland Express í gær og í dag vegna snjókomu víðs vegar um Evrópu.

Guðjón Arngrímsson upplýsingafulltrúi Icelandair segir að félagið hafi þurft að aflýa flugferðum til London og Parísar í dag. „Flug til og frá Heathrow hefur legið niðri vegna veðurs,“ segir Guðjón. „Það er einhver umferð um Heathrow, en það er misjafnt eftir flugstöðvarbyggingum. Til dæmis er  ekki hægt að koma flugfélum til eða frá flugstöðvarbyggingunni sem Icelandair notar, Terminal 1.“

Að sögn Guðjóns eru um 1500 manns sem eiga farmiða með Icelandair og eru strandaglópar ýmist hér á landi eða í Evrópu.

Hann segir erfitt að áætla hversu langan tíma það muni taka að vinna upp þessa truflun, en á morgun eru áætluð tvö aukaflug, til Parísar og til London.

Kristín Þorsteinsdóttir, upplýsingafulltrúi Iceland Express, segir að félagið hafi þurft að seinka flugi til og frá Gatwick flugvelli í London, en flugvöllurinn hefur ýmist verið opinn eða lokaður. 

Hún segir ekki útilokað að félagið muni bæta við flugferðum næstu daga til að vinna þetta upp, en það verði skoðað strax og flugvellir hafa verið opnaðir að nýju. „En eins og staðan lítur út núna ættum við að geta undið ofan af þessu án þess að þurfa að bæta við flugferðum,“ segir Kristín.

Á milli 250 og 300 manns bíða eftir flugi með Iceland Express.

Í fréttum Útvarpsins í kvöld var rætt við íslenska konu, sem hafði  beðið eftir flugvél á Kastrup-flugvelli í Kaupmannahöfn síðan í morgun. Sagði hún að Iceland Express hefði ekki útvegað farþegum sínum neitt að borða og engar upplýsingar fáist á flugvellinum.

Úr Leifsstöð.
Úr Leifsstöð. mbl.is/RAX
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert