Efnin verði ekki bönnuð

Notkun fjölfosfata við saltfiskframleiðslu hafa verið umdeild.
Notkun fjölfosfata við saltfiskframleiðslu hafa verið umdeild. mbl.is/Kristján

Bæjarstjórn Grindavíkur hvetur sjávarútvegsráðherra til að draga til baka ákvörðun um að banna blöndun fjölfosfata í saltfisk og léttsaltaðan fisk. Ályktun þessa efnis var samþykkt samhljóða í bæjarstjórn.

Bæjarstjórn vekur athygli á því að samkvæmt núgildandi reglum er ekki búið að taka fyrir notkun á fjölfosfötum í saltfiskframleiðslu. Hún telur því eðlilegra að ráðherra fylgi m.a. fordæmi Dana og Færeyinga og bíði niðurstöðu Evrópusambandsins, sem skoðar nú að heimila notkun á fjölfosfötum í saltfiskframleiðslu.

„Ljóst er að um verulega hagsmuni er að ræða fyrir íslenska saltfiskframleiðendur og nauðsynlegt að þeir sitji við sama borð og framleiðendur í öðrum löndum. Áætlað er að framleiðsla á saltfiski skapi um 30 milljarða útflutningstekna á Íslandi, en þar af komi að minnsta kosti 20% frá Grindavík,“ segir í ályktuninni.

Bæjarstjórn Grindavíkur býður sjávarútvegsráðherra í heimsókn til Grindavíkur til að kynna sér málið með bæjaryfirvöldum og saltfiskframleiðendum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert