Flug Icelandair til Parísar klukkan 7.50 í dag hefur verið fellt niður vegna slæmra veðurskilyrða í frönsku höfuðborginni. Morgunflug til London er hins vegar á eftir áætlun.
Upplýsingar um stöðuna í París verða uppfærðar klukkan 10 en gert er ráð fyrir að Charles de Gaulle-flugvöllurinn opni klukkan 12.
Flugi Iceland Express til Gatwick í London var frestað frá 7 til 11.05 og flugi Icelandair til Heathrow-flugvallar í sömu borg frá 7 til 10.
Miklar truflanir urðu á flugumferð í Evrópu í gær vegna slæmra veðurskilyrða. Aðeins um 20 flugvélar náðu að lenda eða fara frá Heathrow flugvelli í Lundúnum í stað þeirra 1300 sem venjulega fara um völlinn á hverjum degi.
Reiknað er með að betur gangi í dag en búast má við truflunum á flugumferð á Heathrow næstu daga. Gatwick flugvöllur lokaðist á laugardag en er nú opinn og segja stjórnendur þar að starfsemin sé að komast í eðlilegt horf.