„Hjáseta kom ekki til greina“

Ögmundur Jónasson
Ögmundur Jónasson Ómar Óskarsson

Ögmundur Jónasson, dómsmálaráðherra, segist fyrst hafa fengið að vita af hjásetu þriggja þingmanna Vinsti grænna við atkvæðagreiðslu um fjárlagafrumvarpið, á þingflokksfundi sem haldinn var um morguninn, áður en gengið var til atkvæðagreiðslu um fjárlagafrumvarpið.

Á forsíðu Morgunblaðsins í dag segir að Ögmundur hafi setið fund með þessum þremur þingmönnum, þeim Lilju Mósesdóttur, Atla Gíslasyni og Ásmundi Einari Daðasyni, þar sem ákvörðun hafi verið tekin um hjásetu þeirra í atkvæðagreiðslu um fjárlagafrumvarpið.

„Það er rétt að ég var á þeim fundi sem þarna var vísað til. Þar lágu engar slíkar ákvarðanir fyrir,“ sagði Ögmundur í samtali við mbl.is „Þetta fólk tók sína ákvörðun og verða að svara fyrir það hvers vegna þau gerðu það. Þetta var ekki borið undir mig.“

Tóku ákvörðun á eigin forsendum

„Við skulum færa okkur út úr farvegi gamalla valdastjórnmála, þar sem fólki er skipað fyrir verkum. Ég held að þetta fólk láti ekkert skipa sér fyrir verkum, heldur taki það sína eigin ákvörðun á sínum forsendum. Síðan getur fólk skipst á skoðunum um málin. Ég hef átt það sammerkt með þessu fólki að vera mjög gagnrýninn á áherslur Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og ýmsa aðra hluti og það er ekkert óeðlilegt að við ræðum málin okkar á milli. En það er síðan hvers og eins að taka ákvörðun.“

En kom það til greina af þinni hálfu að sitja hjá við atkvæðagreiðsluna? 

„Það kom ekki til greina í mínum huga að sitja hjá við þessa atkvæðagreiðslu.“

Tekur ekki undir orð Steingríms J.

Haft er eftir Steingrími J. Sigfússyni, formanni VG, að þeir þrír þingmenn, sem sátu hjá við atkvæðagreiðsluna, geti ekki setið áfram í þingflokknum „eins og ekkert hafi í skorist.“ Ögmundur segist ekki geta tekið undir þau orð.

„Nei, það geri ég ekki. Þetta fólk er réttkjörið inn á þing eins og aðrir þingmenn. Það bauð sig fram undir merkjum tiltekins stjórnmálaflokks. Að því að ég fæ best séð hafa þau verið trú þeim kosningaloforðum sem þau gáfu.“

Ögmundur segir að  staðan í þingflokki Vinstri grænna sé sú að margt þurfi að ræða núna. „Við erum sammála um sumt, ekki allt. Eins og gerist í stjórnmálum. “

Eruð þið sammála um að vera ósammála? „Ég er nú ekki  viss um að allir myndu taka undir það.  En ég er frekar á þeirri línu í lífinu að það sé ekkert slæmt að mismunandi sjónarmið séu uppi. En því er ekki að leyna að það hafa verið mismunandi áherslur hvað varðar Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og stefnu hans.“

Eru atburðir síðustu daga þá hluti af eðlilegum skoðanaskiptum í stjórnmálum? „Já, það finnst mér.“

Erfitt að segja til um eftirmál

Ögmundur telur að erfitt sé að segja til um hver eftirmálin af hjásetunni verða. „Ég ætla ekkert að gefa mér um það. Ég vona að svo verði ekki. En það er ljóst að það eru sterkar skoðanir á áherslum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á mjög hraðfara niðurskurði á útgjöldum til velferðarmála.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert