Nábítar, böðlar & illir andar unnu sigur

mbl.is/GSH

Hæstiréttur hefur staðfest úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur um að hafna beri kröfu eignaleigunnar Lýsingar um að járnabeygjuvél verði tekin úr vörslu félagsins Nábíta, böðla & illra anda ehf. með beinni aðfarargerð.

Félagið, sem áður hét  Bindir og vír ehf., gerði kaupleigusamning um járnabeygjuvélina í september 2008 og var samningsupphæðin, rúmar 23 milljónir, tengd japönskum jenum og svissneskum frönkum.

Félagið hætti að greiða af samningnum í ágúst árið eftir og í desember rifti Lýsing samningnum og krafðist þess að vélinni yrði skilað. Forsvarsmenn félagsins sendu Lýsingu bréf í ágúst og október á síðasta ári þar sem lögmæti gengistryggingarinnar var véfengt. Hins vegar væri félagið tilbúið að greiða höfuðstól skuldarinnar í íslenskum krónum að viðbættum vöxtum og frádregnum þeim greiðslum sem hafi verið inntar af hendi.

Lýsing svaraði þessum bréfum ekki heldur hélt áfram innheimtu með óbreyttum hætti. Í sumar komst Hæstiréttur síðan að þeirri niðurstöðu, að óheimilt væri að binda greiðslur af lánasamningum við gengi erlendra gjaldmiðla.

Lýsing lagði í ágústlok í sumar fyrir dóminn endurútreikning á samningnum miðað við breyttar forsendur. Þar kom fram, að Nábítar, böðlar og illir andar hefðu í ágúst 2009 verið búnir að ofgreiða 477.769 krónur. Í desember 2009, þegar samningnum var rift, hafi félagið hins vegar verið í 245.567 króna skuld. Höfuðstóll hinn 20. ágúst 2010 er sagður vera 6.671.249 krónur. 

Hæstiréttur segir, að þegar litið sé til ofgreiðslu Nábíta, böðla og illra anda, sem leiddi til inneignar félagsins hjá Lýsingu, og þess að ekki lægi fyrir hvort sú inneign ætti að bera vexti eða ekki og hver fjárhæð þeirra ætti að vera, yrði ekki talið að Lýsing hefði sýnt fram á að Nábítar hefðu verið í vanskilum með greiðslur fyrr en á gjalddaga 20. desember 2009, en samkvæmt ákvæði í samningi aðila þyrftu vanskil greiðslna að standa í 15 daga hið skemmsta til þess að riftun væri heimil.  Því hafi Lýsing ekki sýnt fram á að því hafi verið heimilt að rifta samningum 22. desember 2009 eins og gert var.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert