Risavaxin náttúruleg jólakúla

Tunglmyrkvi verður í fyrramálið.
Tunglmyrkvi verður í fyrramálið.

Almyrkvi á tungli verður á morgun, þann 21. desember. Þá eru líka vetrarsólstöður, sem er stysti dagur ársins.

Samkvæmt upplýsingum á Stjörnufræðivefnum mun myrkvinn sjást vel frá Íslandi, ef veður leyfir. Almyrkvinn mun hefjast klukkan 7:40 og standa til klukkan 8:54.

„Þennan desembermorgun mun því rautt og jólalegt tungl  svífa eins og risavaxin náttúruleg jólakúla á himnafestingunni og boða rísandi sól,“ segir á Stjörnufræðivefnum.

Sævar Helgi Bragason, formaður Stjörnuskoðunarfélags Seltjarnarness, segir að almyrkvi á tungli gerist á tveggja til þriggja ára fresti.

Sjálfur hefur hann séð nokkra slíka og segir alltaf jafn magnað að upplifa þessa sjón.  

Tunglmyrkvar eru ekki alltaf á sama árstíma, en þeir geta aðeins orðið þegar sólin, jörðin og tunglið liggja hér um bil í beinni línu. Þegar tungl er fullt og fer inn í skugga jarðar.

„Tunglið verður alltaf rauðleitt í almyrkva,“ segir Sævar. „Ástæðan er sú að ljós frá sólinni berst í gegnum efstu lögin á lofthjúpi jarðar þegar jörðin er fyrir sólinni og þá beinist ljósið á tunglið og lýsir það dauflega upp og gefur því rauðan lit. Stundum kemur það fyrir að rauði liturinn sést ekki. Það er þá yfirleitt í kjölfar stórra eldgosa, en þá er svo mikið ryk í loftinu að það dregur úr ljósinu.“

Sævar hyggst rísa árla úr rekkju í fyrramálið til að sjá tunglmyrkvann. Hann verður, ásamt félögum sínum úr Stjörnuskoðunarfélagi Seltjarnarness, við hús Ríkisútvarpsins í Efstaleiti og þar verða þeir með stjörnukíka sína. Að sögn Sævars er, auk tunglmyrkvans, áhugavert að skoða Satúrnus og Venus, sem munu sjást einkar vel um þessar mundir.

Allir eru velkomnir að koma og kíkja í kíkja Stjörnuskoðunarfélagsins á milli klukkan hálf átta og níu í fyrramálið við Efstaleiti.

Samkvæmt veðurspá á vef Veðurstofu Íslands verður heiðskírt um sunnanvert landið í fyrramálið.

Stjörnufræðivefurinn


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert